Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir átök við kjarnorkuver í Úkraínu vera stórhættuleg

epa10110991 UN Secretary General Antonio Guterres speaks during a press conference at the Japan National Press Club in Tokyo, Japan, 08 August 2022. On 06 August 2022, UN Secretary General Guterres attended the ceremony marking the 77th anniversary of the atomic bombing of Hiroshima.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir árásir síðustu daga á kjarnorkuver í borginni Zaporizhzhia í Úkraínu vera stórhættulegar, líkt og allar aðrar árásir sem gerðar séu á kjarnorkuver.

Raunveruleg hætta á kjarnorkuslysi

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hefur biðlað til stríðandi fylkinga í Úkraínu að hætta öllum átökum nærri kjarnorkuverinu, því raunveruleg hætta sé á kjarnorkuslysi eins og staðan sé nú.

Minntist fórnarlambanna í Hiroshima og Nagasaki

Á blaðamannafundi í Tókýó í nótt tók Guterres undir orð Kjarnorkumálastofnunarinnar. Hann minntist einnig fórnarlambanna í Hiroshima og Nagasaki, en í gær voru 77 ár frá fyrri árásinni. Guterres sagði að ríki sem ættu kjarnorkuvopn léku sér með hlaðna byssu með því að eiga slík vopn í vopnabúrinu.

Hann sagðist binda vonir við að Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni tækist að stilla til friðar í verksmiðjunni í Zaporizhzhia, en nefndi hvorki úkraínska né rússneska herinn sérstaklega. Yfirvöld í báðum ríkjunum hafa sagt andstæðinginn bera ábyrgð á árásunum á kjarnorkuverið.