Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Perla í fánalitunum fannst við fornleifauppgröft

Perla sem virðist vera í íslensku fánalitunum fannst við fornleifauppgröft á Seyðisfirði sumarið 2022.
 Mynd: Antikva
Margskonar skrautmunir, perlur og fagrir steinar, frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafa fundist við fornleifauppgröft á Seyðisfirði. Ein perlanna virðist meira að segja að vera í íslensku fánalitunum.

Fornleifarannsókn í landi jarðarinnar Fjarðar við norðanverðan Seyðisfjörð hefur í sumar beinst að því svæði þar sem talið er að landnámsmaðurinn Bjólfur hafi komið sér fyrir.

Fundist hafa minjar frá miðöldum og landnámstíma. Þær liggja undir öskufalli eftir gos sem varð í Öræfajökli árið 1362. Bein manns og hests fundust í kumli á svæðinu, spjót, bátasaumur og fleiri járngripir, brot úr silfurhring og næla sem einnig er talin úr silfri.

Minni gripir á borð við taflmenn, skart og perlur hafa fundist en ein þeirra virðist skarta litum íslenska fánans sem hefur verið þjóðfáni frá því 1915; bláum, hvítum og rauðum.

Perlan er alveg einstök

Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur sem stjórnar rannsókninni segir perluna alveg einstaka og aldur hennar rakinn til tíundu eða elleftu aldar. Hún kveðst hafa séð margar perlur en enga í þessum litum.

„Við settum frétt inn á Facebook og mér sýnist allir fá þessa sömu tilfinningu, það varla að segja það en menn sjá íslenska fánann og velta fyrir sér hvort það hafi verið spámaður í fortíðinni sem gerði þessa perlu.“ 

Ragnheiður segist ekki hafa fundið aðrei eins þannig að líklegt sé að hún verði alveg einstök. Hún segir engar líkur á að perlan sé nýrri en aðrir þeir munir sem fundist hafa.

„Hún er ein af mörgum perlum sem við höfum fundið en kannski sú skemmtilegasta út frá þessari samsetningu á litunum. Það eru engar líkur á því að hún sé yngri. Þetta er undir þessari skriðu þarna og undir þessum öskuhaug sem við erum að grafa upp núna.“ 

Ragnheiður segir mannvirki hafa lifað af skriðu sem féll á elleftu öld. Skriðan segir Ragnheiður hafa farið yfir norðurhluta skála og svo virðist byggingarnar hafi varðveist sérstaklega vel undir henni. 

Þar eru allt að metra háir veggir sem Ragnheiður sé einstakt að finna. Hún segir þarna vera þrjátíu metra skála að finna undir yngri byggingu, þrjú útihús og stór öskuhaugur. 

„Það verður áhugavert að setja þetta í samhengi við þau fjögur kuml sem við grófum upp í fyrra. Þarna er einstakt tækifæri til að skoða sögu Fjarðar frá seinni hluta tíundu aldar og fram á elleftu öld.“

Tuttugu fornleifafræðingar verða að störfum í Firði hið minnsta út ágúst. Ragnheiður býst ekki við að rannsókninni ljúki í sumar en að haldið verði áfram næsta sumar.