Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hvítabjörn felldur á Svalbarða eftir árás á ferðamann

08.08.2022 - 15:00
Hvítabjörn var felldur á Svalbarða 8. ágúst 2022 eftir árás á franskan ferðamann.
 Mynd: TIPS
Hvítabjörn var felldur á Svalbarða í dag eftir atlögu hans að 25 frönskum ferðamönnum sem höfðust við í tjöldum norðanvert við Isfjorden. Ein kona særðist á handlegg í árásinni og var flutt með þyrlu til aðhlynningar á sjúkrahúsi í Longyearbæ.

Áverkar konunnar eru sagðir minniháttar í frétt norska ríkisútvarpsins af málinu en hún verður á sjúkrahúsinu til morguns. Hópnum verður veitt áfallahjálp. 

Skotið var að birninum til að fæla hann á brott og þegar hann fannst kom í ljós að hann var það mikið særður að mönnum var nauðugur einn kostur að fella hann. Lögregla rannsakar nú málsatvik en sex hafa farist í ísbjarnaárásum á Svalbarða frá árinu 1971. 

 

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV