Gleði og glaumur í Hinsegin félagsmiðstöð

Mynd: Karl Sigtryggsson / Sumarlandinn/RÚV

Gleði og glaumur í Hinsegin félagsmiðstöð

08.08.2022 - 13:38

Höfundar

Í Hinsegin félagsmiðstöð Samtakanna '78 og Tjarnarinnar var margt um dýrðir þegar að Sumarlandann bar að garði en þar var unnið að undirbúningi vagns félagsmiðstöðarinnar fyrir Gleðigöngu Hinsegin daga.

Hinsegin félagsmiðstöð er opin á þriðjudögum og tekur í hverri viku á móti 120-140 hinsegin ungmennum. Hrefna Þórarinsdóttir forstöðukona segir mikilvægt að tryggja hinsegin ungmennum öruggt umhverfi þar sem þau geta verið þau sjálf og sinnt hugðarefnum sínum. „Við höfum líka fræðsluhlutverki að gegna og sinnum því af fullri alvöru. Þau fá fræðslu um hinsegin málefni og öðru sem tengist því að vera unglingur í dag.“ 

Gleðigangan hápunktur

Hinsegin félagsmiðstöðin hóf störf 2016 og tók þá við starfi ungliðahreyfingar Samtakanna '78. Hún hefur síðan þá verið starfrækt eins og aðrar félagsmiðstöðvar landsins og starf hennar nær hápunkti ár hvert með þátttöku í Gleðigöngunni. Hrefna segir mikilvægt að vekja athygli í göngunni: „Við reynum að hafa eins hátt og við getum þannig að fólk taki eftir því hver við erum og muni eftir okkur.“ 

Mikilvægt starf

Agla Björk Kristjánsdóttir sækir Hinsegin félagsmiðstöðina og segir hana gegna mikilvægu hlutverki: „Ég fæ að vera það sem ég er og það er enginn að dæma mig. Allir krakkarnir hérna eru svo frábærir og allt starfsfólkið, þetta er svo frábær staður.“ Leo Devon Kvien er sammála og segir félagsmiðstöðina hafa hjálpað sér mikið: „Það hefur hjálpað mér voða mikið með hvernig mér líður, hvernig mér gengur í skóla og í að hitta nýtt fólk og fá fleiri vini.“  

Spenna og stress

Krakkarnir eru að vonum spennt fyrir Gleðigöngunni og voru í óðaönn að undirbúa skreytingar fyrir vagninn þegar að Sumarlandann bar að garði. Agla Björk segir gleðigönguna skipta máli því þar komi stór hópur hinsegin fólks saman og nýtur stuðnings samfélagsins. Birna Vala Fossdal segist spenntur fyrir göngunni: „ Ég er mjög spenntur, ég verð í vagninum á þessu ári.“ Leo Devon hlakkar líka til: „Ég er spennt en líka stressuð af því að ég hef aldrei gert þetta áður. “ 

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum. 

Tengdar fréttir

Mannlíf

Var kominn með bíladellu fjögurra ára

Umhverfismál

Draumurinn kviknaði í Disney World

Menningarefni

Líklega nóg fyrir flesta að læra þrettán jurtir á ári

Mannlíf

„Hérna ræður sko kærleikurinn ríkjum“