„Ég missti fyrirtækið og var á krossgötum“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég missti fyrirtækið og var á krossgötum“

08.08.2022 - 14:08

Höfundar

Linda Pétursdóttir rak Baðhúsið um árabil við mikinn fögnuð kvenna sem stunduðu þar líkamsrækt og heilsulind. Þegar til stóð að færa reksturinn upp í Smáralind tóku við óvæntir erfiðleikar sem enduðu með því að hún sá sig knúna að loka árið 2014. Hún ákvað að venda kvæði sínu í kross og fara í nám þar sem hún féll algerlega fyrir heimspeki.

Linda Pétursdóttir fegurðardrottning og athafnakona er mikill heimsborgari en lýsir sjálfri sér samt sem landsbyggðartúttu inn við beinið. Hún er fædd á Húsavík þar sem hún bjó til tíu ára aldurs og flutti þá á Vopnafjörð.

„Auðvitað er gott að þekkja landsbyggðina líka og vera þaðan, að alast upp úti á landi í staðinn fyrir að vera innan gæsalappa í stórborg,“ segir Linda um upprunann. Hún fer ekki lengur á Vopnafjörð enda eru foreldrar hennar fluttir aftur til Húsavíkur en þangað sækir hún stundum æskuslóðirnar heim. Hún ræddi við Sigurð Þorra og Friðrik Ómar í Félagsheimilinu á Rás 2 um æskuna og ferilinn, og svaraði 22 spurningum sem enginn vill svara.

Sótti um í Ungfrú Reykjavík en var hafnað

Linda á tvo bræður. Sigurgeir, sá eldri, hefur búið á Nýja Sjálandi í 30 ár en Sævar, sá yngri, býr á Akureyri. Sjálf flutti hún frá Vopnafirði og fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna þegar hún var 16 ára. Þar var hún með kennara sem benti henni á að hún gæti orðið gott módel. „Þar byrjaði þetta svona og mér fannst það mjög flattering,“ rifjar hún upp.

Hún flutti aftur heim og fór á námskeið hjá Hönnu Frímannsdóttur í göngulagi og fleiru sem tengist því að vera sýningarstúlka. Þá var orðið ljóst í hvað hún stefndi. „Þetta þótti voða fínt. Ég fór til hennar og hún lagði til að ég tæki þátt í Ungfrú Ísland.“ Hún sótti fyrst um að fá að taka þátt í Ungfrú Reykjavík en var hafnað.

Móðir hennar sendi þá inn umsókn í Ungfrú Austurland og Linda flaug inn að sjálfssögðu. Hún var kjörin ungfrú Ísland og ungfrú heimur í kjölfarið.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Linda var kjörin ungfrú heimur árið 1988

Hafnaði kvöldverði með Audrey Hepburn

„Svo ertu bara komin á svið heimsins og ekki mikið að stjórna því, það er bara hvert verkefnið á fætur öðru. Ég var bara með samning við fyrirtæki og Ísland, fór í fullt af verkefnum. Svo var ég fyrirsæta í Mílanó, Tókýó og London,“ rifjar hún upp.

Lífinu fylgdi eftir þetta mikill glamúr og ferðalög en Linda hafði ekki mikinn áhuga á partístandinu sem fylgdi. Hún hafnaði þeim jafnvel þó henni byðist að hitta frægasta fólk í heimi. „Seinasta kvöldið átti ég að fara í dinner með Audrey Hepburn en ég nennti því ekki, ég vildi frekar hitta kærastann,“ segir Linda sposk.

En Linda hefur þó kynnst frægum og sá skemmtilegasti þeirra segir hún að sé liklega skemmtikrafturinn Jeremy Clarkson. „Hann er mjög ljúfur og góður.“

Vann með trommaranum í Pink Floyd

Svo kynntist hún öðrum frægum manni í Þýskalandi sem henni þótti ekkert sérstaklega merkilegt á meðan á því stóð. Dóttur henni þótti hins vegar mikið til samstarfsins koma nokkrum árum síðar.

„Mér fannst hann bara gamall karl þá en svo var ég að ræða þetta við dóttur mína sem pælir mikið í tónlist, og eitt af uppáhalds böndunum hennar er Pink Floyd. Hún er alltaf að hlusta á þetta heima og ég sagði við hana: heyrðu, ég var einu sinni að vinna með trommaranum,“ segir hún og vísar þá í samstarf sitt með Nick Mason. „Hún var alveg: já hvernig var það? Og ég bara já, það var bara fínt. Hann til dæmis bauð mér að koma í stúdíóið með Pink Floyd en ég nennti því ekki. Ég var ekkert spennt fyrir Pink Floyd og Audrey Hepburn.“

Giftist Friðriki Ómari ef hvorugt gengur út

Linda hefur verið á lausu í þrjú ár og grínast með að það sé tímabært að gera eitthvað í því. Þá kemur í ljós að hún og Friðrik Ómar hafa verið í stafrænum samskiptum í gegnum Instagram um hríð þar sem þau gerðu samning þrátt fyrir að hafa ekki hist.

„Ég man ekki hvort það var fyrir tveimur árum síðan sem við ákváðum að ef við værum ekki gengin út eftir tvö ár ætluðum við að gifta okkur,“ segir Linda glettin. Friðrik tekur undir, ánægður með ráðahaginn en skýtur samt inn: „En það yrði bara opið samband.“

Naktar konur sem þurfa ekki að pæla í hvort einhver sé að glápa

Linda hóf fyrirtækjarekstur þegar hún opnaði Baðhúsið, heilsulind fyrir konur, þegar hún var aðeins 24 ára. „Þá var ég búin að vera módel í Japan í einhvern tíma og þar voru heilsulindir bara fyrir konur. Þá voru naktar konur bara inni, ekkert að pæla í að einhverjir karlar séu að glápa á okkur,“ segir hún. „Það var upphafið að þessu, mitt ævistarf sem var að vinna með konum, hjálpa þeim að bæta heilsu og efla vellíðan í lífinu.“

Með falleg augu og flott brjóst

Linda segir að sínir stærstu kostir séu að vera kjörkuð, vinnusöm og traust. Besti líkamsparturinn segir hún að séu augun en hún er þó ánægð með fleira. „Augun segi ég, en ég er með dálítið flott brjóst,“ segir hún kímin.

Fátt reitir Lindu til reiði en hún þolir illa lélega þjónustu og dónaskap. „Þegar maður er að fara eitthvað og kaupa þjónustu vill maður fá góða,“ segir hún.

Féll fyrir heimspeki

Helsta afrekið er að gefast aldrei upp en hún er líka ánægð með að hafa drifið sig í nám á fullorðinsárum. „Ég er búin að mennta mig mikið,“ segir hún. „Ég fór í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði meðal annars. Þetta var alveg nýtt, 180 gráður. Svo fór ég í lífsþjálfun og master í því.“

Ákvörðunina tók hún þegar hún var á óvæntum stað í lífinu. Þá hafði átt að færa Baðhúsið í Smáralind en við tóku ófyrirséðir erfiðleikar með þeim afleiðingum að hún sá sig knúna til að loka. „Þetta var eftir að ég missti fyrirtækið og var á svona krossgötum.“ Hún hafi svo alveg skipt um gír. „Trikkið var í viðskiptum að vera alltaf að taka ákvörðun bara gó, gó, gó en svo byrjaði ég í heimspeki og það var aldrei neitt svar. Svo endaði það sem uppáhaldsfagið mitt,“ segir Linda.

Vaknar kl. hálf sex og hugleiðir

Linda er vinnusöm og það getur farið mikið í taugarnar á henni þegar aðrir eru það ekki í kringum hana. „Ég vil að hlutir séu gerðir og svo sé það búið. Ég vakna alltaf hálf sex en sef út svona tvisvar á ári til svona átta. Ég fer upp í rúm tíu og sofna milli tíu og ellefu,“ segir hún.

Á morgnanna á hún sína kyrrðarstund. Hún á tvo hunda sem hún fer með út. Hún fer í saunu og stundar hugleiðslu, hlustar á hlaðvarp eða hljóðbók áður en hún byrjar að vinna klukkan níu.

Grætur yfir illri meðferð á dýrum

Hún finnur til með málleysingjum og getur verið miður sín þegar ekki er farið vel með þá. „Ill meðferð á dýrum. Ég er eiginlega búin að vera dýraverndunarsinni síðan ég var lítil,“ segir hún.

„Lokaritgerðin sem ég skrifaði í náminu fjallaði um kjötframleiðslu og verksmiðjubúskap. Ykkur langar ekki að borða kjöt eftir að lesa hana,“ segir Linda sem sjálf borðar ekki kjöt.

Kvíðin fyrir að dóttirin þurfi ekki eins á sér að halda

Stærsti ótti Lindu er að veikjast en hún viðurkennir líka að hún er hrædd um að missa stóran hluta af móðurhlutverkinu. „Dóttir mín verður sautján ára í þessum mánuði og það er smá kvíði yfir að hún þarf ekki jafnmikið á mér að halda og hún gerði,“ segir Linda. „Ég er að fara inn í nýjan kafla sem einstæð móðir og ekki með maka, það er smá ónot yfir því að vera ein. Henni finnst ég ekki mjög kúl.“

Það versta við Ísland er veðurfarið, að hennar mati, en það besta er fólkið. Hún er samt farin að hugsa sér til hreyfings og í sólina. Hún hefur mikið dvalið í Kaliforníu þar sem hún bjó um hríð í eyðimörkinni og naut sín vel. „Þar er sól 360 daga á ári og ég er að hugsa um að flytja já,“ segir hún. Dóttir hennar er að spá í að fara í nám í Vancouver í Kanada og þá langar Lindu að fara einnig burt. „Ég er að hugsa um að vera í sólinni í Kaliforníu,“ segir hún að lokum.

Rætt var við Lindu Pé í Félagsheimilinu á Rás 2. Hér má hlýða á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.

 

Tengdar fréttir

Afþreying

Þegar Linda Pé var kosin Ungfrú heimur

Stjórnmál

Linda Pétursdóttir ætlar ekki í forsetann