Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Vil að það sé skýrt þegar ég syng um stelpur“

Mynd: RÚV / RÚV

„Vil að það sé skýrt þegar ég syng um stelpur“

07.08.2022 - 09:00

Höfundar

Tónlistarkonan Una Torfa var lengi að átta sig á kynhneigð sinni. Þegar hún loks komst að því hver kynhneigðin var vildi hún ekki fara leynt með það og endurspeglar því tónlist hennar hver hún er.

Í tilefni Hinsegin daga var þátturinn Fegurð í frelsi sýndur á RÚV í gærkvöldi. Rætt var við fólk um hinseginleikann og allt sem honum tengist. Nýstirnið Una Torfadóttir sagði þar frá þeirri reynslu sinni að átta sig á að hún sé tvíkynhneigð og hvernig það endurspeglast í tónlist hennar. 

Skiptir máli að kynhneigðin sé ekki leyndardómur  

Tónlistarkonan var lengi að uppgötva kynhneigð sína og átti erfitt með sjálfsmyndina um leið. „Ég man þegar ég var að uppgötva mína kynhneigð almennilega, kannski á fyrsta ári í menntaskóla. Ég var búin að vera í mörg ár með alls konar flækjur í hausnum og fannst rosalega erfitt að finna út úr því hver ég væri,“ segir Una. 

„Það skipti mig mjög miklu máli þegar ég loksins komst að því, að það væri ekki einhver leyndardómur fyrir öðrum.“ Henni þykir því mikilvægt að í tónlist hennar sé skýrt hver hún er.  

„Ég var svo fegin að hafa loksins fundið út úr þessu. Þannig að í músíkinni minni endurspeglast það þannig þar að ég vil að það sé mjög skýrt að ég sé að syngja um stelpur þegar ég syng um stelpur,“ segir Una. „Mér finnst það skipta máli.“ 

Það má gefa sér tíma  

Una segir að það hafi verið langt og strangt ferli að koma út úr skápnum en þó hafi mótstaðan eingöngu verið til staðar innra með henni. „Ég mætti engu mótlæti frá fjölskyldunni eða vinum mínum,“ segir hún. „Sem betur fer er það orðið mikið þannig í dag á Íslandi.“ 

„Þetta var í rauninni orðið þannig að vinkonur mínar voru farnar að segja: Una mín, þetta er ekki svona flókið. Þú ert bara tvíkynhneigð,“ segir hún en var sjálf ósannfærð.  

Hana langar líka til að senda þau skilaboð út í samfélagið að það sé meira en að segja það að finna út úr sjálfsmyndinni sinni. „Það tekur tíma og það má gefa sér þennan tíma og það má gefa sér öll þessi samtöl og pælingar, gera tilraunir með sjálfsmyndina, fara í klippingu og allt þetta,“ segir hún. 

„Því lífið er endalaust ferðalag þar sem maður fær að kynnast sér betur og betur og það er bara fallegt að leyfa því að gerast,“ segir hún. Markmið Hinsegin daga sé að vera stoltur af ferðalaginu og ekki fara leynt með það.  

Sigurður Þorri Gunnarsson ræddi við Unu Torfa í Fegurð í frelsi á RÚV. Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.