Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Trump ýjaði að öðru framboði til forseta

07.08.2022 - 07:14
epa10108200 Former US President Donald J. Trump arrives at a Save America Rally in Waukesha, Wisconsin, USA, 05 August 2022. Trump was campaigning for Wisconsin Republican gubernatorial Tim Michaels, US Senator Ron Johnson and US House candidate Derrick Van Orden. Voters go the polls to vote in the primary election on 09 August.  EPA-EFE/TANNEN MAURY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirgnæfandi meirihluti gesta CPAC Texas, ráðstefnu íhaldssamra Bandaríkjamanna, sagðist vilja að Donald Trump verði frambjóðandi Repúblikanaflokksins í næstu forsetakosningum í gær. Í ávarpi gaf Trump í skyn að hann vildi gefa kost á sér á ný.

Frá því Trump tapaði forsetakosningunum 2020 hefur hann ítrekað gefið í skyn að hann sé hvergi nærri hættur. Fyrr í sumar sagðist hann vera búinn að taka ákvörðun um hvort hann sækist aftur í forsetastólinn en sagði ekki hver sú ákvörðun er. Bandarískir miðlar telja víst að hann ætli í framboð.

Í ræðu á ráðstefnunni sagði Trump að kannski þurfi hann að fara aftur í framboð. Ef hann gerði það ekki myndi fólk hætta að gagnrýna hann en hann elskaði land sitt og gæti því ekki setið hjá.

Þrír mánuðir eru nú í að Bandaríkjamenn kjósi til þings, ríkisstjóra og ýmislegs annars og halda Demókratar og Repúblikanar því forvöl út um allar trissur. Forvöl Repúblikana hafa þótt mælistika á vinsældir Trumps innan flokksins.

Víðast hvar hafa frambjóðendur sem Trump studdi hrósað sigri en það er þó ekki algilt. Í síðustu viku tapaði Trump-liði í Arizona fyrir frambjóðanda sem Mike Pence, sem var varaforseti Trumps, studdi.

Afstaða gesta ráðstefnunnar í Texas var nokkuð skýr. 69 prósent íhaldsmannanna sögðust vilja að Trump bjóði sig fram fyrir flokkinn. Næst á eftir var Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, með 24 prósent. Ef Trump neitar að gefa kost á sér sögðu flestir DeSantis besta kostinn. 

Þórgnýr Einar Albertsson