Tvö vallarmet og mikil spenna fyrir lokahringinn

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Elvar Þórólfsson - Golf.is

Tvö vallarmet og mikil spenna fyrir lokahringinn

06.08.2022 - 19:00
Aðeins einn hringur er eftir á Íslandsmótinu í golfi. Fimmtán ára kylfingur er á góðri leið með að verða Íslandsmeistari. Það er Perla Sól Sigurbrandsdóttir. Hún mun á morgun berjast við Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, þrefaldan Íslandsmeistara, um titilinn. Í karlaflokki er einnig mikil spenna og erfitt að spá fyrir hver fær nafn sitt ritað á bikarinn. Aðeins fjórum höggum munar á efsta og tíunda manni.

Miklar sviptingar urðu í karlaflokki í dag. Birgir Guðjónsson var efstur fyrir hringinn á fimm höggum undir pari en náði sér ekki á strik í dag. Hann lék á þremur höggum yfir pari og er jafn Kristófer Karli Karlssyni og Böðvari Braga Pálssyni í fjórða sæti fyrir síðasta keppnisdaginn.

Sigurður Bjarki Blumenstein jafnaði vallarmetið í Eyjum í dag. Hann lék á 62 höggum, átta höggum undir pari, og er jafn Kristófer Orra Þórðarsyni á fjórum höggum undir pari samtals í öðru sæti. Sigurður Bjarki deilir nú vallarmetinu með Haraldi Franklín Magnús.

Það er Kristján Þór Einarsson sem stendur best að vígi fyrir lokahringinn. Hann er með tveggja högga forystu eftir að hafa leikið á sex höggum undir pari í dag. Ef það hefði ekki verið fyrir skramba hans á 17. braut hefði hann getað gert atlögu að vallarmetinu líkt og Sigurður Bjarki.

15 ára leiðir

Í kvennaflokki stefnir allt í tveggja kvenna einvígi um Íslandsmeistaratitilinn. Hin 15 ára gamla Perla Sól Sigurbrandsdóttir, sem var í forystu eftir bæði fyrsta og annan hring, er enn í efsta sætinu. Hún lék hring dagsins á einu höggi undir pari. Hún hefur þó aðeins eins höggs forskot á Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur sem er önnur á pari. Ólafía Þórunn lék hringinn í dag á þremur undir pari.

Ríkjandi Íslandsmeistari, Hulda Clara Gestsdóttir náði sér ekki á strik fyrstu tvo keppnisdagana og var eftir þá á 18 höggum yfir pari. Hún lék hins vegar frábærlega í dag, tapaði ekki höggi, og setti nýtt vallarmet af bláum teigum, 65 högg.

Veðurspáin er vægast sagt slæm fyrir morgundaginn. Spáð er 16 metrum á sekúndu og rigningu og spurning hvort veðrið setji strik í reikninginn fyrir mótshaldið.

Uppfært: Farið verður fyrr af stað á morgun svo hægt sé að ljúka keppni samdægurs. Fyrstu keppendur fara af stað klukkan sex í fyrramálið og útsending RÚV hefst klukkan 11.