Gosstöðvarnar í Meradölum verða lokaðar vegna veðurs frá klukkan fimm í fyrramálið og þar til síðdegis á morgun. Þá verður staðan metin að nýju. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Þar segir að gul veðurviðvörun verði í gildi fyrir svæðið á morgun og að vindur verði um 13-18 m/s. Talsverðri úrkomu er spáð og þoku sömuleiðis.
„Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og einnig fyrir gangandi og hjólandi ferðalanga. Ekkert ferðaveður verður á gossvæðinu á meðan viðvörunin er í gildi," segir í tilkynningunni.