Mikill fjöldi göngufólks var á gosstöðvunum í kvöld, enda veður sæmilegt til útiveru eftir að rigningunni stytti upp undir kvöld og þrátt fyrir rokið.
Landsvæðið sem hraunið þekur eftir tvo fyrstu dagana frá því gosið hófst er orðið afar víðfeðmt og hraunið rennur víða um Meradali líkt og stöðuvatn. Eldgosið breytist þannig frá degi til dags, það slokknar í einum gíg á meðan aukinn kraftur færist í aðra.
Vísindafólk sem tók út svæðið í dag, kom til þess að meta aðstæður og kanna hvort nýjar sprungur séu að opnast annars staðar á gosstöðvunum.
Nýta reynsluna frá því í fyrra
Kristín Jónsdóttir hópstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands, segir hugsanlegt að fleiri sprungur muni opnast. Fylgst sé vel með gasmengun og margt sem vísindafólk hafi lært af gosinu í Geldingadölum í fyrra nýtist til þess að meta stöðu og þróun nýja gossins í Meradölum.
Kristín segir gosin tvö áþekk og aðdraganda þeirra svipaðan, mikilvægt sé að fylgjast með breytingum á sprungum, en ekki síður að vara fólk sem er á ferðinni á svæðinu við þeim hættum sem kunna að skapast í kringum gosið.
Ester Hlíðar Jensen landmótunarfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að myndataka, meðal annars með drónum, nýtist vel til þess að meta jarðhreyfingar og breytingar frá gosinu í fyrra. Þau skoði meðal annars hvort sprungur á svæðinu hafi hreyfst í jarðhræringunum og skjálftunum sem riðu yfir í aðdraganda gossins.