„Ég er allur að koma til. Ég var að koma úr rannsókn þar sem leitað var skýringa. Þar kom í ljós að þetta var sem betur fer ekkert rosalega skæð baktería. En ég hef greinilega bara fengið svona slæmt tilfelli af henni,“ sagði Anton Sveinn þegar hann ræddi við RÚV í dag.
Ætlar ekki of geyst af stað
En hversu mikið setja veikindin strik í reikninginn í EM-undirbúningnum? „Ég er nú sem betur fer heilbrigður og með góða heilsu yfir höfuð. Auðvitað tóku þessi veikindi mig hratt niður en á sama tíma ætti maður að ná sér hratt á strik aftur að sama skapi. Þannig það er bara að reyna að halda eins mikilli yfirvegun og hægt er. Ekkert að fara of geyst af stað og ég hef nú líka æft vel að undanförnu. Svo lítur nú líka út fyrir að ég fái næstum því viku í Róm fyrir æfingar,“ sagði Anton Sveinn sem hefur aðeins verið í léttu busli í dag sem hann segist ekki kalla æfingar.