Prince Rogers Nelson, sem lést fyrir um sex árum, vildi á tímabili ekki láta kalla sig neitt annað en listamanninn, eða The Artist formally known as Prince.
Dánarorsök Prince var of stór skammtur opíóíða og fannst hann látinn í lyftu á heimili sínu í Minnesota.
Skipti á eignum Prince hafa tekið langan tíma, enda lést hann án þess að láta eftir sig erfðaskrá. Það flækti málið fyrir sex hálfsystkinum listamannsins sem voru lögerfingjar hans. Eignir dánarbúsins voru metnar á 156 milljónir bandaríkjadala, eða rúmlega 21 milljarð króna.
Erfingjar fá helming eigna
Samkvæmt úrskurði dómstóls í Minnesota sem frétttaveita CNN hefur undir höndum, fá þrjú af systkinum söngvarans helming reiðufjár búsins, en þau halda utan um persónulega arfleið tónlistarmannsins í sérstöku eignarhaldsfélagi, Prince Legacy.
Hinn helmingur eignanna fer til félags sem heldur utan um höfundarrétt tónlistar Prince, OAT Holdings, sem aftur er í eigu útgáfufyrirtækisins Primary Wave. Prince seldi yfir 120 milljónir hljómplatna á ferlinum.
Þá greiðir dánarbúið lögmönnum og fjármálafyrirtækjum sem önnuðust málaferli og samskipti við skattyfirvöld vegna skipta búsins, þrjár milljónir dala í þóknun.
Hér að neðan má horfa á poppgoðið flytja eitt af sínum vinsælustu lögum, Purple Rain, á tónleikum í Paisley Park Minnesota árið 1999.