Skiptum á dánarbúi Prince lokið

q
 Mynd: EPA

Skiptum á dánarbúi Prince lokið

04.08.2022 - 18:14

Höfundar

Skiptum á dánarbúi hins heimsþekkta tónlistarvirtuós Prince eða The Artist, goðsagnar í heimi tónlistar og táknmyndar popptónlistar á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, söngvara, lagahöfundar og hljóðfæraleikara, er loks lokið.

Prince Rogers Nelson, sem lést fyrir um sex árum, vildi á tímabili ekki láta kalla sig neitt annað en listamanninn, eða The Artist formally known as Prince.

Dánarorsök Prince var of stór skammtur opíóíða og fannst hann látinn í lyftu á heimili sínu í Minnesota.

Skipti á eignum Prince hafa tekið langan tíma, enda lést hann án þess að láta eftir sig erfðaskrá. Það flækti málið fyrir sex hálfsystkinum listamannsins sem voru lögerfingjar hans. Eignir dánarbúsins voru metnar á 156 milljónir bandaríkjadala, eða rúmlega 21 milljarð króna.

Erfingjar fá helming eigna

Samkvæmt úrskurði dómstóls í Minnesota sem frétttaveita CNN hefur undir höndum, fá þrjú af systkinum söngvarans helming reiðufjár búsins, en þau halda utan um persónulega arfleið tónlistarmannsins í sérstöku eignarhaldsfélagi, Prince Legacy. 

Hinn helmingur eignanna fer til félags sem heldur utan um höfundarrétt tónlistar Prince, OAT Holdings, sem aftur er í eigu útgáfufyrirtækisins Primary Wave. Prince seldi yfir 120 milljónir hljómplatna á ferlinum.

Þá greiðir dánarbúið lögmönnum og fjármálafyrirtækjum sem önnuðust málaferli og samskipti við skattyfirvöld vegna skipta búsins, þrjár milljónir dala í þóknun.

Hér að neðan má horfa á poppgoðið flytja eitt af sínum vinsælustu lögum, Purple Rain, á tónleikum í Paisley Park Minnesota árið 1999.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Ný plata frá Prince fimm árum eftir andlátið

Tónlist

„Þegar Prince dó ákvað ég að hætta að fresta“

Tónlist

Vilja að Trump hætti að spila Prince

Menningarefni

Fjölskylda Prince í mál við lækninn hans