„Sé eftir að spyrja mömmu ekki meira áður en hún dó“

Mynd: RÚV / RÚV

„Sé eftir að spyrja mömmu ekki meira áður en hún dó“

02.08.2022 - 15:40

Höfundar

Móðir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra lést þegar hún var sjálf aðeins rúmlega tvítug. Áslaug segist vera með bláu augun hennar móður sinnar og sér ekki eftir mörgu í lífinu nema þó kannski að hafa ekki nýtt tækifærið betur á meðan hún lifði til að njóta visku hennar.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla, iðnaðar og nýsköpunarráðherra er bogmaður í stjörnumerki, fædd 30. nóvember 1990 í Reykjavík. Aðspurð hvort hún sé félagslyndur íþróttaálfur, eins og bogmönnum er gjarnan lýst, viðurkennir hún að minnsta kosti hið fyrra. „Vinkonur mínar segja stundum að ég sé félagslyndasti Íslendingurinn því ég er aldrei ein. Mér finnst svo gaman að fólki og það kemur út í því að eiga góða vini,“ segir Áslaug sem nýtur sín í góðra vina hópi en líka með fólkinu í vinnunni. Íþróttaálfur kveðst hún þó ekkert endilega vera þó hún hafi um hríð stefnt á frama í hestaíþróttum. „Ég var mikið að keppa og vann mikið af bikurum,“ rifjar hún upp í samtali við Friðrik Ómar og Sigurð Þorra í Félagsheimilinu á Rás 2. „Það má segja að ég sé svona hestaálfur.“

Áslaug er á leið í hestaferð með föður sínum þar sem þau ætla að skoða hálendið, fara á Njáluslóðir og Landmannaafrétt. „Ég stóðst ekki mátið að fara með honum í ferðalag, á hálendið að dvelja í kofum þar sem það er ekkert rafmagn,“ segir hún. „Þetta verður þvílíkt ævintýri.“

Sleppti ekki sundfötunum í Nauthólsvík

Áslaug svaraði tuttugu og tveimur spurningum sem enginn vill svara, sem er dagskrárliður í Félagsheimilinu á Rás 2. Þá viðurkenndi hún meðal annars að hafa synt nakin í sjó en greindi ekki nákvæmt frá þeim viðburði. „Þetta var bara einhver stemning sko,“ segir hún. „Ég fer í sjósund, finnst gaman að synda í sjónum í Nauthólsvík en það var ekki þar sem ég sleppti sundfötunum.“

Tapar ekki á að vera óhrædd og prófa sig áfram

Um eigin helstu mannkosti segir hún að þar beri líklega hæst jákvæðni og hugrekki. „Ég er ekki hrædd við margt og það hefur skilað mér ýmsu,“ segir hún. „Mitt helsta ráð til ungs fólks er bara að vera óhræddur við að prófa, sama hvort það á við um starfið þitt, lífið þitt, að breyta um takt eða námið. Að vera óhræddur við að prófa sig áfram, þú tapar ekki á því.“

Amma hennar og nafna var einstök kona

Áslaug ber nafn ömmu sinnar, Áslaugar Sigurbjörnsdóttur sem var næstum alnafna hennar. „Ég fékk Örnu-nafnið til að greina okkur að,“ segir Áslaug. Amma hennar var hjúkrunarkona, prestsfrú, organisti og líka dýralæknir á Grundarfirði þegar afi Áslaugar starfaði þar sem prestur. „Hún fékk fálkaorðuna fyrir störf sín á Grundarfirði,“ segir Áslaug stolt. „Hún var einstök kona.“

Óheiðarleiki reitir til reiði

Það fer fátt í taugarnar á Áslaugu en óheiðarleiki getur reitt hana til reiði. „Það er í lagi að segja eitthvað sem maður er ósammála en ekki segja eitthvað sem þú ætlar ekki að standa við og þú veist það. En ég er reið mjög stutt, ég er mjög ólangrækin. Ég man aldrei mikið,“ segir hún.

Getur enn spurt föður sinn

Augun eru eftirlætis líkamspartur Áslaugar á sjálfri sér. Þau eru blá og hún kveðst hafa fengið þau frá móður sinni. Móðir Áslaugar lést þegar Áslaug var 21 árs gömul og hún segir að mesta eftirsjá hennar í lífinu tengist móður sinni. „Ég sá aðeins eftir að hafa ekki spurt mömmu mína meira áður en hún dó,“ segir hún. „Það eru tíu ár síðan í nóvember og ég var bara rétt rúmlega tvítug,“ bætir hún við. „En ég ákvað að sjá ekki mikið eftir því, ég gerði bara það sem ég gat í þessum kringumstæðum. Svo á ég pabba sem ég get alltaf spurt.“

Svanhildur Hólm besta vinkonan

Áslaug á líka marga að og segir að það sé í raun hennar mesta afrek að eiga að stóran hóp vina og fjölskyldu. „Öll önnur afrek koma svolítið út af því, mælanlegri afrek.“ Um besta vin minn segir hún erfitt að velja einn, en bætir svo við að þá myndi hún nefna Svanhildi Hólm vinkonu sína.

Mest óþolandi í eigin fari segir Áslaug að sé fljótfærni sem hún stundum sýnir og að hún eigi það til að tala hátt og mikið. „Ég er mjög hávær, það er ábyggilega óþolandi í mörgum hópum,“ segir hún. „En ein vinkona mín er búin að snúa því upp í kost. Hún segir að ég sé með óaðfinnanlega raddbeitingu. Það er hægt að nýta mig til að fá hljóð í mjög stórum sölum.“

Grætur yfir raunveruleikasjónvarpi

Það er ekki eins langt í tárin hjá Áslaugu og mörgum. „Ég græt yfir ýmsu. Auðvitað grætur maður þegar maður saknar einhvers eða er leiður, en svo græt ég líka yfir American Idol og svona. Þegar einhver nær markmiðum sínum, ég fer bara að gráta,“ segir hún.

Óttast köngulær og að missa nána aðstandendur

Þó hún sé hugrökk og óttist ekki margt þá verður hún stundum hrædd um þá sem eru henni nánastir. „Ég held að ótti við að missa aðstandanda eða nána vini sé alltaf aðeins meiri en annars konar ótti,“ segir hún en bætir því við að hún sé hrædd við kóngulær, „sem er rosalega skrýtið og mig langar eiginlega að láta dáleiða þetta úr mér. Mig langar að laga þetta því mér finnst þetta asnalegt.“

Íslendingar kaldhæðnir, þægilegir og skrýtnir

Það versta við Ísland segir Áslaug að það hljóti að vera veðrið. Það besta sé svo blanda af fólkinu og náttúrufegurðinni. „Mér finnst við svo chilluð, kaldhæðin og þægileg þó við getum líka verið stórskrýtin,“ segir hún glettin. Það sé mikill munaður að búa við að geta alltaf skotist burt í kyrrðina og náttúrufegurðina. Svo leyni Ísland á sér og hún er enn að uppgötva nýjar perlur. „Ég fór í Drangey í gær og held það sé örugglega einn fallegasti staður á Íslandi. Það er svo gaman að uppgötva eitthvað nýtt við landið sitt.“

Rætt var við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í Félagsheimilinu á Rás 2. Hér má hlýða á þáttinn í heild sinni.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Ég losnaði algjörlega við að óttast dauðann“

Menningarefni

„Á maður ekki bara að vera heiðarlegur með svona?“