England Evrópumeistari eftir framlengdan leik

epa10100652 England's team celebrates winning the UEFA Women's EURO 2022 final between England and Germany at Wembley in London, Britain, 31 July 2022.  EPA-EFE/Andy Rain
 Mynd: EPA

England Evrópumeistari eftir framlengdan leik

31.07.2022 - 18:50
Enska landsliðið í fótbolta varð Evrópumeistari kvenna með sigri á Þjóðverjum í úrslitaleik á Wembley í dag. Leikurinn var jafn og mjög spennandi. England komst yfir í seinni hálfleik en Þýskaland jafnaði og framlengja þurfti. Í framlengingunni náðu ensku Ljónynjurnar að koma boltanum í netið og unnu 2-1. Þetta er fyrsti Evrópumeistaratitill Englendinga í fótbolta og í fyrsta sinn sem Þjóðverjar tapa úrslitaleik á EM kvenna.

 

Leikurinn fór rólega af stað og ljóst að mikið var undir. Þjóðverjar voru meira með boltann en Englendingar beittari fram á við. Eftir tæplega 20 mínútur fór sókn Englendinga að þyngjast. Þjóðverjar áttu þó hættulegt færi á 25. mínútu eftir horn. Eftir nokkurn darraðardans í markteignum náði Mary Earps, markvörður Englendinga, að koma höndum á boltann. Á 38. mínútu átti England góða sókn. Beth Mead renndi boltanum á Ellen White sem var ekki í nægilega góðu jafnvægi og setti boltann yfir. Markalaust var því í hálfleik.

Þjóðverjar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og Tabea Wassmuth, sem kom inn á sem varamaður í hálfleik, komst ein í gegnum vörn Englendinga á 48. mínútu. Færið var nokkuð þröngt og Earps réð auðveldlega við skotið. Skömmu síðar fékk Lina Magull gott færi innan vítateigs Englands en setti boltann framhjá.

Á 62. mínútu unnu Englendingar boltann á eigin vallarhelmingi. Keira Walsh átti þá langa sendingu inn fyrir vörn Þjóðverja beint inn í hlaupaleið Ella Toone sem lyfti boltanum skemmtilega yfir Merle Frohms í markinu. Staðan orðin 1-0 fyrir heimakonur. Magull var þó nálægt því að jafna fyrir Þýskaland skömmu síðar en skot hennar fór í samskeytin. Hún skoraði síðan á 79. mínútu þegar hún setti boltann snyrtilega í þaknetið eftir sendingu Tabea Wassmuth. Staðan orðin 1-1. Ekki var meira skorað í venjulegum leiktíma og framlengja þurfti.

Þreytumerki voru á leikmönnum í framlengingunni og lítið um opin færi. Þjóðverjar voru þó meira með boltann í fyrri hálfleik hennar. Í seinni hálfleik komst England yfir. Boltinn datt þá fyrir varamanninn Chloe Kelly eftir hornspyrnu sem skoraði í annarri tilraun. Þær þýsku reyndu hvað þær gátu til að jafna en Englendingar voru sterkari á lokasprettinum og unnu 2-1.

Þjóðverjinn Alexandra Popp, sem fyrir leikinn var markahæst í mótinu ásamt Beth Mead, meiddist í upphitun í dag og var ekki með. Mead var eftir leikinn valinn besti leikmaður mótsins. Hún fékk einnig gullskóinn vegna þess að hún gaf fleiri stoðsendingar en Popp. 

 

epa10100614 England's Chloe Kelly celebrates scoring the 2-1 lead during the UEFA Women's EURO 2022 final between England and Germany at Wembley in London, Britain, 31 July 2022.  EPA-EFE/Andy Rain
 Mynd: EPA
Chloe Kelly fagnaði sigurmarki sínu á skemmtilegan hátt.