Leikurinn fór rólega af stað og ljóst að mikið var undir. Þjóðverjar voru meira með boltann en Englendingar beittari fram á við. Eftir tæplega 20 mínútur fór sókn Englendinga að þyngjast. Þjóðverjar áttu þó hættulegt færi á 25. mínútu eftir horn. Eftir nokkurn darraðardans í markteignum náði Mary Earps, markvörður Englendinga, að koma höndum á boltann. Á 38. mínútu átti England góða sókn. Beth Mead renndi boltanum á Ellen White sem var ekki í nægilega góðu jafnvægi og setti boltann yfir. Markalaust var því í hálfleik.
Þjóðverjar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og Tabea Wassmuth, sem kom inn á sem varamaður í hálfleik, komst ein í gegnum vörn Englendinga á 48. mínútu. Færið var nokkuð þröngt og Earps réð auðveldlega við skotið. Skömmu síðar fékk Lina Magull gott færi innan vítateigs Englands en setti boltann framhjá.
Á 62. mínútu unnu Englendingar boltann á eigin vallarhelmingi. Keira Walsh átti þá langa sendingu inn fyrir vörn Þjóðverja beint inn í hlaupaleið Ella Toone sem lyfti boltanum skemmtilega yfir Merle Frohms í markinu. Staðan orðin 1-0 fyrir heimakonur. Magull var þó nálægt því að jafna fyrir Þýskaland skömmu síðar en skot hennar fór í samskeytin. Hún skoraði síðan á 79. mínútu þegar hún setti boltann snyrtilega í þaknetið eftir sendingu Tabea Wassmuth. Staðan orðin 1-1. Ekki var meira skorað í venjulegum leiktíma og framlengja þurfti.
Þreytumerki voru á leikmönnum í framlengingunni og lítið um opin færi. Þjóðverjar voru þó meira með boltann í fyrri hálfleik hennar. Í seinni hálfleik komst England yfir. Boltinn datt þá fyrir varamanninn Chloe Kelly eftir hornspyrnu sem skoraði í annarri tilraun. Þær þýsku reyndu hvað þær gátu til að jafna en Englendingar voru sterkari á lokasprettinum og unnu 2-1.
Þjóðverjinn Alexandra Popp, sem fyrir leikinn var markahæst í mótinu ásamt Beth Mead, meiddist í upphitun í dag og var ekki með. Mead var eftir leikinn valinn besti leikmaður mótsins. Hún fékk einnig gullskóinn vegna þess að hún gaf fleiri stoðsendingar en Popp.