Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Svar sundsambandsins vonbrigði

07.07.2022 - 17:19
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Stjórn Sundsambands Íslands hefur svarað erindi Argafas, félagsskapar trans fólks, um þá ákvörðun að greiða atkvæði með því að meina trans konum þátttöku í heimsmeistaramótum í sundi. Einn stofnenda Argafas segir svarið vonbrigði.

Argafas sendi Sundsambandi Íslands erindi eftir að fréttir bárust af nýjum reglum Alþjóðasundsambandsins. Í erindinu var farið fram á að sundsambandið endurskoðaði afstöðu sína. Sambandið hefur svarað erindinu og kemur meðal annars fram í svarinu að Sundsambandinu sé annt um mannréttindi, fjölbreytileika og inngildingu. „Ákvörðun um að styðja reglurnar hafi verið tekin miðað við fyrirliggjandi gögn á þeim tíma,“ segir í svarinu. Ennfremur er sagt að Alþjóðasundsambandið ætli að halda áfram að afla gagna í þessum málum.

Elínborg Harpa Önundardóttir í Argafas segir svarið vonbrigði og setur spurningamerki við gæði þeirra gagna sem Sundsambandið vísar til. „Í rauninni var þetta bara mjög slæmt svar sem við fengum. Við kannski vonuðumst eftir að þau myndu gefa aðeins meira af sér af því að í rauninni eru þau bara að reyna að loka samtalinu með þessu svari og vilja ekki eiga frekara samtal. Á meðan til dæmis ÍSÍ, þau hafa að minnsta kosti boðið okkur á fund og að minnsta kosti sagst vilja halda einhvers konar samtali áfram og segja að það sé mikilvægast þó að okkur finnist auðvitað mikilvægast að útskúfa ekki trans konum úr íþróttum,“ segir Elínborg Harpa.

Hún bendir á að ef eitthvað sé að marka tölur um að um það bil eitt prósent fólks sé trans þá væri eðlilegt að um eitt prósent keppenda í íþróttum væri trans og að sama skapi um eitt prósent verðlaunahafa. Enn hafi þó trans konur ekki keppt á heimsmeistaramóti í sundi.

Björn Sigurðsson formaður Sundsambandsins sagði í samtali við fréttastofu í gær að erindið hefði verið tekið fyrir á stjórnarfundi og að það væri móttakenda svarsins að ákveða hvort það yrði gert opinbert. Ekki náðist í Björn við vinnslu fréttarinnar.