Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Lavrov mættur á utanríkisráðherrafund G20 á Balí

07.07.2022 - 07:05
epa10054409 Russian Foreign Minister Sergei Lavrov speaks during a meeting with the Vietnamese prime minister (not pictured) at the Government's Office in Hanoi, Vietnam, 06 July 2022.  EPA-EFE/LUONG THAI LINH / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, er mættur til indónesísku eyjarinnar Balí, þar sem hann mun taka þátt í utanríkisráðherrafundi G20-ríkjanna, 20 stærstu iðnríkja heims, í dag og á morgun. Nokkurs taugatitrings gætir í aðdraganda fundarins vegna þátttöku Lavrovs í skugga Úkraínustríðsins.

 

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hún segir brýnt að Rússar fái ekki að komast upp með að nýta sér fundinn til að berja sér á brjóst og réttlæta innrásina í Úkraínu. „Það er okkur öllum í hag að alþjóðalög séu virt og eftir þeim farið. Það er það sem við eigum öll sameiginlegt,“ segir Baerbock í yfirlýsingunni.

Fyrsti fundur Lavrovs með mörgum fundargesta frá upphafi stríðsins

Á fundinum mun Lavrov hitta marga starfsbræður sína og -systur í fyrsta skipti síðan Rússar réðust inn í Úkraínu, þar á meðal nokkra hörðustu gagnrýnendur stríðsrekstursins.

The Guardian vitnar í rússnesku Tass-fréttastofuna sem segir frá því að Lavrov ætli að nota tækifærið til að ræða við nokkra kollega sína á einkafundum meðfram G20-ráðstefnunni. Allmargir þeirra, þar á meðal þau Baerbock og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafa hins vegar útilokað slíka fundi með Lavrov.

Fæðuöryggi og orkumál á dagskrá

Meðal umræðuefna á fundinum eru orkumál og fæðuöryggi, en Vesturlönd, með G7-hópinn í fararbroddi, saka Rússa um að stuðla vísvitandi að matarskorti í heiminum og kynda undir verðbólgu með því að hindra útflutning á úkraínsku korni. Rússar hafa sagst reiðubúnir að tryggja óheftan kornútflutning - að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.