Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Mest spennandi liðið“

epa08890489 (FILE) - Lucy Bronze (R) of England in action against Lisa Evans (L) of Scotland during the preliminary round match between Scotland vs England at the FIFA Women's World Cup 2019 in Nice, France, 09 June 2019 (reissued 17 December 2020). Manchester City player Lucy Bronze wins Best FIFA Women's Player Award during the Best FIFA Football Awards virtual TV show broadcast from the FIFA headquarters in Zurich on 17 December 2020.  EPA-EFE/SEBASTIEN NOGIER
 Mynd: EPA

„Mest spennandi liðið“

06.07.2022 - 16:16
Sérfræðingar EM-stofunnar, þær Ásgerður Stefanía Baldursdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir, telja báðar möguleika Englands mikla á EM í fótbolta sem hefst klukkan 19 í dag. Nýr hollenskur þjálari hefur skipt sköpum hjá liðinu og meiðsli besta manns Spánverja er vatn á myllu Englendinga.

Evrópumeistaramótið í fótbolta kvenna hefst klukkan 19 með leik Englands og Austurríkis. Mótið verður leikið í Englandi og verður fyrsti leikurinn spilaður fyrir troðfullum Old Trafford í Manchester. Flestir sérfræðingar telja lið heimamanna það líklegasta til sigurs á mótinu.

„Þetta er mest spennandi liðið núna,“ segir Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrrverandi landsliðskona og leikmaður Vals í Bestu deild kvenna. „Sérstaklega miðað við meiðslin sem komu upp í gær hjá Spánverjunum.“ Þar á hún við meiðsli Alexia Putellas sem sleit krossband á æfingu spænska liðsins í gær. Hún er talin vera besti leikmaður heims. Það styrkir stöðu Englendinga fyrir mótið, að sögn Ásgerðar.

Englendingar koma á miklu skriði inn í mótið að sögn Ásgerðar. „Þær spila skemmtilegan bolta, svipað og Hollendingarnir gerðu og hafa skorað mikið af mörkum.“

Phil Neville lét af störfum sem þjálfari Englendinga og Hollendingurinn Sarina Wiegman tók við í fyrra. Wiegman gerði Hollendinga að Evrópumeisturum í 2017 og fór með liðið í úrslit á heimsmeistaramótinu 2019.

„Þær eru komnar með einhvern besta þjálfara í heimi í dag,“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir um Wiegman. „Hún er algjörlega búin að stoppa í þessi göt sem voru fyrir í varnarleik liðsins hjá forvera hennar í starfi. Þær voru að hleypa í gegn óþarfamörkum. Svo er sóknarleikurinn líka búinn að taka stórstígum framförum,“ segir hún.

Beinskeyttur þjálfari

„Hún er beinskeyttur þjálfari og þorir að taka erfiðar ákvarðanir,“ segir Ásgerður. „Hún tók mjög erfiða ákvörðun og skildi fyrirliðann eftir heima en hún var búin að glíma við meiðsli.“ Á hún þar við Stephanie Houghton en Leah Williamson tók við af henni sem fyrirliði fyrir mótið.

„Við vitum hvernig ensk knattspyrna er. Þær eru sterkar, þær eru góðar í föstum leikatriðum og vilja detta svolítið í það sparka boltanum fram,“ segir Margrét. „En mér finnst eins og þjálfarinn þeirra hafi fært þeim meiri gæði. Hún er úr hollenska boltanum þar sem þær vilja halda boltanum og spilað snarpt og stutt. Þær eru komnar með góða blöndu af þessu tvennu.“

74 þúsund manns munu vera á leiknum í kvöld og má búast við brjálaðri stemningu. „Þetta verður stór stund fyrir kvennaknattspyrnuna,“ segir Margrét. 

Ráða Englendingar við pressu?

En verður þetta of mikil pressa fyrir Englendingana?

„Það er erfitt að segja en þegar maður lítur yfir leikmannahóp Englendinga þá eru þetta leikmenn með mikla reynslu á alþjóðavettvangi,“ segir Margrét og nefnir þar sem dæmi Lucia Bronze sem skipti yfir til Barcelona í sumar. Hún hefur unnið fjölda titla með Lyon og Manchester City. „Það er auðvitað alltaf spurningarmerki hvort þær muni brotna undan pressunni. Það er auðvitað pressa að spila sem fótboltakona í Englandi.“

„Ég held að það hjálpi þeim frekar að vera á heimavelli og spila fyrir framan fullan völl á Old Trafford,“ segir Ásgerður.

Sýnd veiði en ekki gefin

Þó Englendingar séu talsvert sigurstranglegri gegn Austurríkismönnum og hafi aldrei tapað eða gert jafntefli gegn þeim er liðið sýnd veiði en ekki gefin. „Þær eru með sterkt varnarlið sem fær á sig fá mörk,“ segir Ásgerður „Ég held að England byrji eins og þær hafa byrjað flesta leiki í undankeppninni. Þær pressa hátt frá byrjun og ég held að þær verði með yfirhöndina í leiknum.“

Margrét Lára tekur í svipaðan streng: „Austurríska liðið er með öflugan mannskap, liðsheild. Það eru minna þekktir leikmenn í þeirra liði en þær hafa gott skipulag.“

Leikur Englands og Austurríkis hefst klukkan 19:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV 2. EM-stofan hefst klukkan 18:30.