Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Johnson segir kosningar ekki koma til greina

06.07.2022 - 15:24
epa10054954 A man protests against British Prime Minister Boris Johnson outside the Houses of Parliament in London, Britain 06 July 2022. Johnson is facing questions about the future of his premiership following the resignation of two senior government ministers, the Chancellor of the Exchequer and the Health Secretary  EPA-EFE/TOLGA AKMEN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Boris Johnson forsætisráðherra segir að það komi ekki til greina að efna til kosninga að svo stöddu. Hann segir engan vilja fyrir því meðal landsmanna að stjórnmálamenn einbeiti sér að kosningabaráttu að svo stöddu. Hann sagði að almenningur vildi miklu frekar að stjórnmálamenn einhentu sér í að stýra landinu vel.

Alls hafa 30 ráðherrar og aðstoðarráðherrar breska Íhaldsflokksins sagt af sér sér síðastliðinn sólarhring. Fimm bættust í hópinn síðdegis. Þeir sendu Boris Johnson bréf þar sem þeir biðja hann í góðri trú að segja af sér, eins og það er orðað í bréfinu. Það sé af hinu góða fyrir flokkinn og þjóðina ef hann láti af embætti. 
Sky sjónvarpsfréttastöðin greindi frá því í dag, að Michael Gove ráðherra, einn nánasti samstarfsmaður Borisar Johnsons, hafi tjáð honum í morgun að tími væri kominn til að hann segði af sér. Forsvarsmenn hóps almennra þingmanna í neðri málstofu breska þingsins hafa verið boðaðir til fundar síðar í dag. Að sögn breskra fjölmiðla stendur til að þeir skori á Johnson að segja sig frá leiðtogahlutverki flokksins og þar með forsætisráðherraembættinu.