Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Grænlendingar flýta klukkunni

06.07.2022 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: Lisa Burns / World of Greenland)
Grænlenska landstjórnin áformar að flýta klukkunni á Grænlandi um eina stund. Þar með verður klukkan á Grænlandi nær Íslandi og öðrum Evrópulöndum. Fyrr á árinu voru málefni klukkunnar færð frá stjórnvöldum í Kaupmannahöfn til grænlensku landstjórnarinnar.

Grænland er víðfeðmt land og teygir sig yfir svæði sem samsvarar nokkrum tímabeltum. Þrátt fyrir það er nær allt landið – ef frá eru taldir litlir skikar austast og vestast – í sama tímabeltinu, GMT –3 á veturna og GMT –2 á sumrin.

Nú stendur til að gera GMT –2 að vetrartíma. Þannig yrði klukkan í stærstum hluta Grænlands aðeins tveimur stundum á eftir Íslandi á veturna, og einni á sumrin. Samtök atvinnulífsins í Grænlandi eru meðal þeirra sem lýsa ánægju með frumvarpið enda einfaldi það samskipti við Evrópu á vinnutíma.

Sumartíminn lifir í bili

Með breytingunni feta Grænlendingar í fótspor Íslendinga sem flýttu klukkunni um eina stund árið 1968. Ólíkt Íslandi verður sumartími þó ekki aflagður samtímis. Í það minnsta ekki í bili.

Fram kemur í frétt grænlenska miðilsins Sermitsiaq að vilji sé til þess innan stjórnkerfisins, en að forsenda þess hafi verið að Evrópusambandið legði niður sumartímann eins og til stóð.

„Landstjórnin er enn þeirrar skoðunar að sumartímann eigi ekki að leggja niður fyrr en eftir að Evrópusambandið gerir slíkt.“