
Deila um landamerki féll virkjunarsinnum í vil
Áform um Hvalárvirkjun byggja að hluta á því að Eyvindarfjarðarvatn sé að hálfu á landi Engjaness hvers eigandi styður virkjun. Meirihluti eigenda Drangavíkur, eða eigendur 74,5% hlutar, töldu hins vegar að vatnið og Eyvindarfjarðará væru á sínu landi, þar sem mynda eigi uppistöðulón
Fjórir landeigendur, eigendur 25,5% jarðarinnar Drangavíkur, tóku hins vegar afstöðu með eiganda jarðarinnar að Engjanesi, ítölskum barón, Felix Von Longo Liebenstein en hann hefur samið við Vesturverk um vatnsréttindi vegna virkjunarinnar byggt á því að áin renni um hans landareign.
Báðir aðilar byggðu mat sitt á landamerkjabréfum frá árinu 1890 en túlkun þeirra var þó ólík.
Meirihluti landeigenda í Drangavík hélt því fram að jörð þeirra næði alla leið til vatnaskila á Drangajökli. Þorvaldur Ásvaldsson, faðir Eiríks rauða, nam land í Drangavík og héldu landeigendur fram að engar vísbendingar eða skriflegar heimildir væru um annað en að jörðin hefði verið numin milli fjalls og fjöru, líkt og venja er.
Málið horfði öðruvísi við hinum ítalska Felix Von Longo Liebenstein, eiganda Engjaness sem taldi líklegt að Eyvindur Herröðarson, sem Eyvindará er kennd við, hefði numið land á undan Þorvaldi og því eignað sér svæðið. Þá taldi hann að málflutningur eigendahópsins í Drangavík samræmdist ekki því sem fram kemur í Landnámu, né heldur kenningum fræðimanna sem hafa rýnt í verkið.
Dómari í málinu komst að þeirri niðurstöðu að lýsing í landamerkjabréfi sé „fremur í samræmi við það“ sem eigendur Engjaness halda fram en málshöfðendur. Þó er tekið fram í dóminum að „landamerkjabréf séu ekki afgerandi um landamörkin“.
Sérstaklega er horft til þess í dómnum að eigendur jarðarinnar í Drangavík hafi ekki allir staðið á bak við málsóknina og því sé sönnunarbyrði þeirra sem að henni standa þyngri, en samkvæmt lögum hefðu þeir þurft að sýna fram á að kröfur barónsins að Engjanesi væru bersýnilega rangar. Það taldi dómaranum að þeim hefði ekki tekist.
Eigendahópurinn tapaði því málinu og var gert að greiða 12,4 milljónir króna í málskostnað, þar af 8,4 til Felix Von Long-Liebenstein eiganda Engjaness og eigenda jarðarinnar Ófeigsfjarðar, þrjár milljónir til meðeigenda sinna á jörðinni Drangavík og eina milljón til íslenska ríkisins.