Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Boris Johnson ætlar ekki að yfirgefa skipið

06.07.2022 - 10:58
epa10054663 British Prime Minister Boris Johnson leaves 10 Downing Street prior to attending a Prime Minister's Questions (PMQs) session at the Houses of Parliament, in London, Britain, 06 July 2022. British Prime Minister Boris Johnson is facing questions about the future of his premiership following the resignation of two senior government ministers, the Chancellor of the Exchequer and the Health Secretary.  EPA-EFE/TOLGA AKMEN
 Mynd: EPA
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands, var til svara í breska þinginu klukkan ellefu í morgun. Keir Starmer formaður Verkamannaflokksins, og þingmenn annarra flokka þjörmuðu að forsætisráðherranum vegna upplausnarástands í ríkisstjórninni. Fjöldi ráðherra og annarra háttsettra þingmanna hefur sagt af sér síðasta sólarhring og ekki sér fyrir endann á.

Alls hafa tveir tugir lykilmanna sagt af sér og fer fjölgandi eftir því sem á líður daginn. Á meðan þingfundi stóð héldu afsagnir áfram. Á meðal þeirra sem sögðu skilið við ríkisstjórnina í hádeginu voru Jo Churchill umhverfisráðherra og Stuart Andrew ráðherra húsnæðismála. 

Beitir sömu taktík og í Partygate

Johnson varðist fimlega fyrirspurnum sem beint var að honum, meðal annars með því að ræða önnur óskyld mál og forðast að svara fyrir stöðu stjórnarinnar. Þetta er taktík sem hann hefur þróað þegar sótt er að honum í þinginu, meðal annars þegar Partygate-málið var til umfjöllunar.

Hvort taktíkin dugar í þetta skipti, verður að koma í ljós, en margir greinendur telja stöðuna vera hina flóknustu í ríkisstjórnartíð Johnsons og hratt fjari undan forsætisráðherranum, líka í eigin flokki. 

Ætlar að sitja áfram

Engan bilbug var að finna á Johnson í hádeginu sem segist ekki ætla að yfirgefa skipið og neitar að láta af embætti. Hann kvaðst ætla að sitja áfram á meðan þjóðin væri að jafna sig eftir erfiðleika heimsfaraldursins og mestu ófriðartíma í Evrópu í áttatíu ár.

Keir Starmer, rifjaði upp ávirðingar sem bornar hafa verið á Johnson á undanförnum misserum og nú síðast að hann hefði skipað Chris Pincher í embætti varaformanns þingflokks Íhaldsflokksins, þrátt fyrir að hafa vitað af óviðeigandi hegðun Pincher. Starmer sagði að allir með sjálfsvirðingu væru löngu búnir að segja af sér. 

Starmer fór einnig yfir atburði síðasta sólarhrings, afsögn ráðherra og annarra hátt settra embættismanna í stjórn Johnsons. Hann spurði forseta þingsins hvort landsmenn væru ekki í fyrsta sinn að upplifa að sökkvandi skip væri byrjað að flýja rotturnar.