Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vara við brottrekstri diplómata frá Búlgaríu

epaselect epa10049377 Employees of the Russian Embassy and their families during their departure at Sofia Airport, Bulgaria, 03 July 2022. Two planes from the Russia are expected to land in Sofia on 03 July to pick up and transport to their homeland the 70 diplomats and employees at the Russian Embassy, along with their family members, that Bulgaria declared on 28 June persona non grata for working for the secret services and 'acting against the interests of Bulgaria', as reported to Efe sources from the airport in the Bulgarian capital. Bulgaria had already expelled thirteen other representatives of Moscow since the Russian invasion of Ukraine began at the end of February, in all cases accused of espionage.  EPA-EFE/VASSIL DONEV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Moskvu vöruðu við því í dag að brottvísun 70 rússneskra stjórnaerindreka frá sendiráðinu í Búlgaríu hefði áhrif á gjörvallt Evrópusambandið.

Í yfirlýsingu frá Mariu Zakharovu, talskonu rússneska utanríkisráðuneytisins, segir að ákvörðun Búlgara sé fyrst og fremst pólítísk og hún verði ekki látin óátalin.

Hún sagði Búlgara þverbrjóta allar almennar diplómatískar siðvenjur með brottvísuninni og hvatti þá og Evrópusambandið til að íhuga grundvallarreglur gagnkvæmra milliríkjasamskipta.

„Evrópusambandið verður að átta sig á því að fljótfærnislegur stuðningur einstakra aðildarríkja við andrússneskt athæfi er ábyrgð þess og hefur áhrif á gjörvalt sambandið,“ segir Zakharova.

Hún bætti við að það ætti einnig við um mögulegar hefndaraðgerðir Rússa. Evrópusambandið segir viðbrögð Rússa úr öllu samhengi og harmar tilefnislausar hótanir þeirra um að slíta stjórnmálatengsl við Búlgaríu.

Sendiherra Rússlands íhugaði að loka sendiráðinu í Búlgaríu eftir að þarlend stjórnvöld harðneituðu að snúa við ákvörðun sinni að vísa 70 starfsmönnum þess úr landi.

Rök fyrir brottrekstrinum voru þau að fólkið ynni gegn búlgörskum hagsmunum. Mörg ríki vísuðu rússneskum sendiráðsmönnum brott eftir innrásina í Úkraínu og Rússar svöruðu í sömu mynt.

Þvílíkar fjöldabrottvísanir sendiráðsstarfsmanna eru óþekktar í Búlgaríu sem er aðili að Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu. Landið hefur einnig sögulega sterk tengsl við Rússland.