Skiptast á plöntum í friði og spekt

Mynd: RÚV / RÚV

Skiptast á plöntum í friði og spekt

05.07.2022 - 11:00

Höfundar

Plöntuskiptadagurinn var haldinn nýlega á Akureyri. Þangað kom fólk klyfjað afleggjurum úr garðinum. Mikil gleði ríkti og flest fóru heim með mun meira en þau ætluðu sér.

Einu sinni á ári hittast félagar í Garðyrkjufélagi Akureyrar og skiptast á plöntum. Plöntuskiptadagurinn var haldinn á dögunum og Sumarlandinn fékk að fylgjast með.

„Alltaf afskaplega ánægulegur dagur“

„Þetta er mjög gott tækifæri fyrir fólk sem er að byrja að koma sér upp garði. Það er svo dýrt að kaupa sér mikið af plöntum,“ segir Margrét Guðmundsdóttir hjá Garðyrkjufélagi Akureyar. Sum mæta klyfjuð af afleggjurum úr garðinum og fara jafnvel heim með annað eins. Og auðvitað eru sumar plöntur eftirsóttari en aðrar.

„Það eru samt aldrei nein slagsmál. Við erum með uppboðsstjóra sem sjá til þess að allt fari vel fram. Þær eru meistarar í plöntugreiningu og sjá um að bjóða upp plönturnar,“ segir Margrét.

„Þetta fer allt fram í friði og spekt,“ segir Sesselja Ingólfsdóttir, önnur uppboðsstjóranna. „Mér finnst vera aukinn áhugi á fjölærum plöntum núna. Þær duttu eiginlega úr tísku, það voru allir bara með palla og sumarblóm en núna eru fjölæru blómin að koma aftur.“

„Þetta er alltaf afskaplega ánægulegur dagur. Það eru allir svo glaðir,“ segir Margrét og bætir við að allar plönturnar komist í mold. „Við komum öllu út. Það verður ekkert eftir og flestir fara heim með miklu meira en þeir ætluðu sér.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Plöntuskiptin hjá Garðyrkjufélagi Akureyrar.

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Fjarstýrðir bílar ekki bara leikföng

Menningarefni

Bjó sér til vinnu með því að opna hótel