Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segir núverandi launafyrirkomulag vera til mikilla bóta

Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Jón Ingvarsson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir segir að það fyrirkomulag sem leysti kjararáð af hólmi sé til mikilla bóta þótt forystumenn verkalýðsfélaga hafi gagnrýnt það. Hún telur að óánægja með hækkun launa æðstu embættismanna ætti ekki að hafa áhrif á komandi kjaraviðræður.

Í samtali við fréttastofu segir forsætisráðherra að kjararáð hafi verið lagt niður fyrir vegna þess að það hafi verið „vont fyrirkomulag, þar sem laun hækkuðu í risastórum stökkum á nokkurra ára fresti og olli yfirleitt miklum deilum.“ Í staðin hafi verið sett fast viðmið sem gildi um laun æðstu embættismanna og þjóðkjörinna einstaklinga.

Nokkrar deilur urðu þegar Fjársýsla Ríkisins tilkynnti að um mistök hafi orðið í útreikningi launa tiltekinna embættismanna, þeirra á meðal þingmanna, dómara, ráðherra og fleiri hátt settra embættismanna. Fengu þeir einstaklingar ofgreidd laun og var þeim gert að endurgreiða ofgreiðsluna.

Sama dag var tilkynnt um að laun þingmanna muni hækka um 4,7%. Katrín segir að það sé hækkunin sem ákvörðuð er með lögum. Um helgina gagnrýndi Drífa Snædal, forseti ASÍ, hækkunina. Hún furðaði sig á því að æðstu ráðamenn þjóðarinnar fái launahækkanir á hverju ári sem séu töluvert umfram hækkanir í almennum kjarasamningum. Drífa er þeirrar skoðunar að hækkun á launum þingmanna muni hafa áhrif á komandi kjaraviðræður. 

Katrín er ósammála. Hún telur að hækkanirnar muni ekki hafa áhrif á komandi kjaraviðræður.

„Það liggur fyrir að laun almennt hafa hækkað og kaupmáttur hefur aukist. Ég vil minna á það að meðal annars vegna þeirra góðu kjarasamninga sem verkalýðshreyfingin gerði hér þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir höfum við séð kaupmáttaraukningu hér á Íslandi, sem ég tel að sé töluvert meiri og skeri sér úr þegar við horfum til annarra landa hvernig við fórum í gegnum þessa síðustu kreppu,“ segir Katrín Jakobsdóttir.