Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sá grunaði handtekinn nærri árásarstaðnum

epa10052335 Law enforcement officers investigate the scene of a mass shooting at a 4th of July celebration and parade in Highland Park, Illinois, USA, 04 July 2022. A gunman opened fire as people gathered to watch a Fourth of July parade in Highland Park, Illinois, killing at least six people and injuring dozens.  EPA-EFE/TANNEN MAURY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lögregla hefur handtekið manninn sem grunaður er um að hafa myrt og sært fjölda fólks við skrúðgöngu í Highland Park, úthverfi Chicago í dag. Sá grunaði heitir Robert „Bobby“ Crimo III, er 22 ára og var handtekinn skammt þaðan sem skrúðgangan fór um samkvæmt upplýsingum lögreglu í Highland Park.

Lögreglumaður kom auga á Crimo sem flúði en náðist fljótlega. Hann veitti enga mótspyrni þegar hann var handtekinn en ákæra hefur ekki enn verið lögð fram.

Alls létust sex í skotárásinni og að minnsta kosti 30 særðust, þar á meðal nokkur börn. Skrúðgangan var haldin í tilefni 4. júlí, þjóðhátíðardags Bandaríkjanna, og mörg börn tóku þátt í henni.

Skotmaðurinn kom sér fyrir á þaki byggingar og skaut þaðan með öflugum riffli á göngufólk. Lögregla bendlaði Crimo fljótlega við voðaverkið en samkvæmt frétt The Guardian af málinu hafa ástæður þess ekki verið látnar uppi. Hann er talinn hafa verið einn að verki.

J.B. Pritzker, ríkisstjóri Illinois sagði á blaðamannafundi hve skelfilegt það væri að hátíð til heiðurs Bandaríkjunum væri tætt í sundur af verstu plágu Bandaríkjanna.

Þar á hann við tíðar og mannskæðar skotárásir víðsvegar um Bandaríkin en Pritzker hét því í yfirlýsingu í kvöld að gera allt sem í hans valdi væri til að binda enda á það ofbeldi. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV