Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Rauði þráðurinn er einhver saga

Mynd: Karl Sigtryggsson / Sumarlandinn/RÚV

Rauði þráðurinn er einhver saga

05.07.2022 - 10:00

Höfundar

„Það er eitthvað að og það er verið að syngja um það,“ segir kántrísöngvarinn Axel Ómarsson. Umfjöllunarefnið þarf alltaf að skipta flytjandann máli og þess vegna syngur Axel um Ísland.

Sveitatónlist, eða kántrítónlist eins hún og gjarnan kölluð, er kannski ekki ýkja algeng hér á norðurhjara en þó á hún sér dyggan hlustendahóp. Sumarlandinn fylgdist með undirbúningi Country Heart tónlistarhátíðarinnar í Hafnarfirði og ræddi við kántrísöngvarann Axel Ómarsson.  

Íslendingar kunna að meta kántrí

Axel ólst upp í Texas og kynntist þar kántrítónlistinni vel. Þegar hann flutti heim til Íslands, um þrítugt, ákvað hann að halda áfram að syngja í þeim stíl.  

Rauði þráðurinn í kántrítónlist er að það er alltaf einhver saga, einhver atburður sem sungið er um. „Konan fór frá mér, bíllinn fór ekki í gang eða hundurinn er dauður,“ segir hann. „Það er eitthvað að og það er verið að syngja um það.“ 

Að sögn kunna Íslendingar að meta kántrítónlist. „Ég finn fyrir því að þeir sem eru hrifnir af kántrítónlist eru mjög aktívir og láta vel í sér heyra,“ segir Axel. „Það er mjög gaman fyrir mig að semja tónlist og vita að það sé fólk sem er að fíla þetta.“ 

Hann segist halda að Íslendingar hafi margir haft fyrirframgefnar hugmyndir um hvað kántrítónlist er og haldið sig frá henni. „Svo föttuðu þau bara einn daginn að annað hvert lag sem þau hlusta á og þykir gaman að er í rauninni kántrítónlist því þetta er svo stórt svið, alveg eins og popptónlist.“ Tónlistargreinarnar blandist mikið og kántrítónlist eigi rætur í poppi, rokki, djassi og jafnvel gospel.  

Axel gerir kántrítónlistina að sinni með því að syngja um Ísland. „Maður verður að syngja um það sem skiptir máli,“ segir hann og Ísland skiptir hann máli.  

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum.