Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Napalm-stúlkan liðsinnir úkraínsku flóttafólki

Phan Thị Kim Phúc aðstoðaði úkraínska flóttamenn við að komast til Kanada í júlí 2022. Hún er þekkt sem stúlkan sem ljósmynduð var hlaupandi nakin og skaðbrennd eftir Napalm árás á heimaþorp hennar í Vietnam árið 1972.
 Mynd: MICHAL DYJUK / AP
Phan Thị Kim Phúc, sem margir kannast við sem Napalm-stúlkuna, aðstoðaði við að koma 236 flóttamönnum frá Úkraínu til Kanada í gær. Á búk flugvélarinnar var myndin heimsfræga af Phúc, þar sem hún hljóp nakin og skaðbrennd í átt að ljósmyndaranum Nick Ut eftir eldsprengjuárás í Víetnam árið 1972.

Fólkið frá Úkraínu steig um borð í flugvélina í Varsjá, höfuðborg Póllands. Þaðan var flogið með það til borgarinnar Regina, höfuðstaðar Saskatchewan-ríkis í Kanada.

Phúc flaug ásamt eiginmanni sínum Bui Huy Toan frá Toronto til Varsjár og þaðan fylgdu þau flóttafólkinu síðasta spölinn. Phúc fluttist til Kanada á tíunda áratug síðustu aldar og stofnaði Kim-stofnunina sem liðsinnir þeim börnum sem búa á stríðshrjáðum svæðum.

Phúc kveðst vilja senda heiminum skilaboð um mikilvægi friðar, bæði með sögu sinni sem mörkuð er miklum þjáningum, og ekki síður með þeirri aðstoð sem hún veitir flóttafólki um allan heim.

Ekki fórnarlamb heldur sú sem lifði af

Ljósmyndarinn Nick Ut var 21 árs þegar hann tók ljósmyndina sem hefur orðið táknræn fyrir hrylling Víetnam-stríðsins. Hann hlaut Pulitzer-verðlaun fyrir myndina.

Phúc segir Ut hafa bjargað lífi sínu enda kom hann henni strax undir læknishendur. Hún lá heilt ár á sjúkrahúsi en alla ævi hefur hún búið við líkamlegar þrautir og átt erfitt með hreyfingar.

Í síðustu viku undirgekkst hún tólftu og seinustu leysigeislameðferðina við brunasárunum á stofnun á Miami í Florída í Bandaríkjunum. Þar hitti hún ljósmyndarann Ut að nýju.

Phúc segist óska þess að allir geti lifað lífinu af ástríki, með von og fyrirgefningu að leiðarljósi. „Ef allir gerðu það þyrftum við ekki að þola stríð.“ Hún segist lengi hafa haft ímugust á ljósmyndinni, henni fannst hún sjálf ljót og fyrirvarð sig fyrir nektina.

Hún glímdi við sjálfsvígshugsanir í mörg ár á eftir enda var hún sífellt kvalin, andlega og líkamlega.

„Núna finnst mér ég ekki fórnarlamb stríðsátaka lengur. Ég lifði af! Fyrir fimmtíu árum var ég fórnarlamb, en ég hef síðan þá verið vinur, hjálparhella, móðir, amma og eftirlifandi sem kallar eftir friði í heiminum.“