Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Næturstrætó ekur á ný um helgina

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Næstu helgi, og allar helgar í sumar, verður hægt að taka næturstrætó heim af djamminu. Fyrstu ferðir næturstrætó verða eknar aðfaranótt laugardagsins 9. júlí. Tvö ár eru síðan næturstrætó gekk á höfuðborgarsvæðinu.

Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir að verið sé að svara ákalli um betri og fjölbreyttari þjónustu úr miðbænum.

Næturstrætó mun aka sjö leiðir úr miðbænum utan hefðbundinnar tímatöflu, til Hafnarfjarðar, Kópavogs, Breiðholts, Úlfarsársdals, Norðlingaholts, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness. Aðeins verður boðið upp á næturþjónustu frá miðbænum, aðfaranætur laugardags og sunnudags. 

Fjárhagsstaða Strætó hefur verið mjög erfið að sögn framkvæmdarstjórans. Í vor var tilkynnt um að þjónusta Strætó yrði skert vegna mikils rekstrarhalla.

Jóhannes segir að næturþjónusta Strætó muni ekki valda verulegum vandræðum, en næsta verkefnið hjá stjórn Strætó er að reyna að bæta rekstur félagsins. 

Þjónustan verður til reynslu fram í september. Að sögn Jóhannesar verður þjónustan metin í lok þess tímabils út frá notkun og ánægju viðskiptavina.

Fargjald fyrir fullorðna verður 490 krónur ef greitt er með greiðslumiðlum á vegum Strætó. Þeir sem vilja staðgreiða með greiðslukorti eða reiðufé þurfa að borga þúsund krónur fyrir ferðina.

peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV