Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Forsætisráðherra vill þrengja vopnalöggjöf

Mynd: RÚV / RÚV
Forsætisráðherra segir markmið stjórnvalda að þrengja vopnalöggjöfina svo það verði erfiðara að fá vopn hér á landi. Aðgengi að vopnum geti leitt af sér fleiri tilefnislausar árásir eins og gerðar voru síðustu tvær helgar í Osló og Kaupmannahöfn.

Skotárásir á Norðurlöndunum hafa vakið ugg undanfarnar vikur. Hér á landi fer þeim fjölgandi, á þessu ári hafa verið gerðar fjórar skotárásir, síðast fyrir rúmri viku í Hafnarfirði. Vopnuðum útköllum sersveitar vegna fólks sem vopnað er skotvopnum hefur líka fjölgað ár frá ári. Í fyrra vopnaðist sérsveitin 87 sinnum, rúmlega þrisvar oftar en fyrir sex árum. 

Í fréttum RÚV í gær sagði doktor í afbrotafræði tilefni til að skoða byssulöggjöfina og hvort þessi þróun kallaði á hertar reglur.

„Það er fullt tilefni til að endurskoða vopnalöggjöfina. Þetta hefur verið rætt á vettvangi ríkisstjórnar“ segir Katrín Jakobsdóttir.

Dómsmálaráðuneytið er með vopnalöggjöfina til skoðunar, hvort þurfi að þrengja ákveðna þætti hennar og bæta eftirlit samkvæmt henni.

„Markmiðið er að þrengja ákvæði löggjafarinnar. Þannig við séum í rauninni að þrengja aðgengi að vopnum“ segir Katrín.

Af Norðurlöndunum er byssueign næstmest hér á eftir Finnlandi. Við upphaf árs voru rúmlega 76.700 vopn skráð í einkaeigu hér. Skráðir eigendur eru rúmlega 36.500.

„Það er töluverður fjöldi skotvopna á landinu. Og við sjáum það bara við þessi skelfilegu tíðindi sem við erum að fá, fyrst frá Osló og síðan frá Kaupmannahöfn að aðgengi að vopnum er einn af þáttunum sem getur leitt af sér svona skelfilegar, tilefnislausar árásir eins og við sjáum í þessu tilfelli“ segir Katrín.