Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fór til Parísar að kynna Verbúðina

Mynd: RÚV / Vesturport

Fór til Parísar að kynna Verbúðina

05.07.2022 - 15:36

Höfundar

Tveir þættir af Verbúðinni, sem sló í gegn í sjónvarpi hér á landi í vetur, voru sýndir á sérstakri íslenskri viku í París, þar sem íslenskur matur og menning voru í aðalhlutverki. Selma Björnsdóttir, söng- og leikkona, kynnti þessa framúrskarandi þáttaröð sem hún sjálf lék stórt hlutverk í.

Selma Björnsdóttir var algjörlega óvæntur gestur í þættinum Félagsheimilið í umsjón Friðriks Ómars og Sigga Gunnars á Rás 2. Þeir félagar eru á Akureyri, voru fyrir utan áfengisverslun ríkisins þar í bæ, og hittu fyrir Selmu vinkonu sína. Fyrr en varði var Selma sest í hljóðver RÚV beint á móti ÁTVR í viðtali í þætti Friðriks og Sigga. 

Selma hafði frá mörgu að segja þótt hún væri algjörlega óundirbúin. Talið barst fljótt að Verbúðinni og vinsældum hennar og þá sagði Selma frá útrás þáttarins til Frakklands. Hún fór með Nönu, framleiðanda þáttanna, fyrir hönd Vesturports að kynna þáttinn á íslenskri viku, þar sem íslenskur matur og menning voru í aðalhlutverki. 

„Það voru sýndir þarna tveir þættir svo sátum við fyrir svörum og fólk var mjög áhugasamt um þetta og það var bara rosalega gaman," sagði Selma. 

Að fara að leika meira

Selma fór með nokkuð stórt hlutverk í Verbúðinni og þótti mörgum hún koma á óvart. Selma er auðvitað þekktari sem söngkona og því kom það mörgum spánskt fyrir sjónir að sjá hana leika stórt hlutverk í vönduðum sjónvarpsþáttum. 

Hún segist hafa gaman af að leika endrum og eins og sagði Friðriki og Sigga frá því að bráðum myndi hún leika í nýrri bíómynd byggðri á bók Yrsu Sigurðardóttur, Kulda. 

„Það hefur nú alltaf dottið inn hjá mér þó ég geri kannski ekkert út á það," segir Selma um leikinn og bætir við: „Ef það er eitthvað skemmtilegt sem kemur upp þá segi ég ekkert nei. Ég er einmitt að fara að leika í þriller, Kulda eftir Yrsu Sigurðardóttur, það er verið að fara að gera bíómynd upp úr henni, Erlingur Thoroddsen er að gera það."

Þar fyrir utan er Selma iðin við kolann við leikstjórn og leikaraval. Það vita ekki margir að Selma Björnsdóttir er konan á bak við leikaravalið í ýmsum stórum og frægum sjónvarpsþáttum, bíómyndum og leiksýningum hér á landi.

„Ég hef verið svona stundum að sjá um leikaraval eins og fyrir Ófærð og fyrir Kötlu og svo fyrir Against the Eyes, sem er Netflix-bíómynd, og fyrir Eiðinn."

Um hvernig þessi verkefni hafi öll komið til segir Selma: „Balti bað mig bara um að gera þetta. Þannig ég hef svona dottið inn í verkefni með honum, þetta hefur alltaf hentað mjög vel að gera þetta í og með."

Hlusta má á viðtalið við Selmu í spilaranum hér fyrir ofan en þátt Félagsheimilisins í heild sinni má finna hér.