Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Eina lausnin að láta af sjúklegri orkuþörf

Mynd með færslu
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. Mynd: Steingrímur Dúi Másson - RÚV
Framkvæmdastjóri Landverndar segir ekki hægt að takast á við loftslagsbreytingar nema ráðast að rótum vandans, losun gróðurhúsalofttegunda.

„Þetta er vandi sem við höfum vitað af mjög lengi og við getum ekki tekist á við hann nema að ráðast að rótum vandans, sem er sjúkleg ásókn í auðlindir sem virðist vera óstöðvandi,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir í samtali við fréttastofu. 

Samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands kemur fram að losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi nálgist sama stig og fyrir heimsfaraldur. Losunin jókst um 3,3 prósent í fyrra eftir að hafa minnkað verulega árin tvö á undan. 

„Heimsbyggðin bara dreif sig aftur í að fara í business as usual, fara aftur í sama ástand eins og var fyrir heimsfaraldurinn. Og greip ekki það tækifæri sem við höfðum til þess að byggja upp aftur á umhverfisvænan hátt,“ segir Auður. 

Engin skortur sé á vísindarannsóknum á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Vísindin hafi varað við afleiðingum loftslagsbreytinga áratugum saman og mannkynið geti ekki skýlt sér á bakvið að það vanti rannsóknir. Þær lausnir sem heimurinn hefur viljað grípa til séu ekki að ráðast á rót vandans, losun gróðurhúsalofttegunda. 

„Loftslagskrísan er orkukrísa og eina lausnin er að láta af sjúklegri orkuþröf.“ 

ingibjorgsg's picture
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
Fréttastofa RÚV