„Ég læsti alltaf herberginu mínu á nóttunni“

Mynd: Sigríður Gísladóttir / Aðsend

„Ég læsti alltaf herberginu mínu á nóttunni“

05.07.2022 - 12:37

Höfundar

„Ég komst sjálf í gegnum þetta og þá á ég að láta í mér heyra,“ segir Sigríður Gísladóttir stofnandi Okkar heims, úrræðis fyrir börn foreldra sem eru með geðrænan vanda. Geðrænar áskoranir móður Sigríðar lituðu hennar eigin æsku og í dag veitir hún börnum í svipuðum aðstæðum aðstoð sem hún fékk aldrei sjálf.

Sigríður Gísladóttir sat í stjórn Geðhjálpar frá árinu 2019 til loka ársins 2020. Þá tók hún við stöðu verkefnastjóra við innleiðingu á stuðningi og fræðslu fyrir börn foreldra með geðrænan vanda. Okkar heimur er verkefni sem hún fór af stað með innan Geðhjálpar en er orðið sjálfstætt og er hún eigandi og framkvæmdastjóri.

Sigríður gaf sjálfri sér loforð á unglingsaldri um að hún myndi nýta reynslu sína af því að eiga foreldri með geðrænan vanda til að aðstoða önnur börn í svipaðri stöðu síðar á lífsleiðinni. Hún stóð við loforðið og segir að starfsemi Okkar heims gangi afar vel, þeim sé alls staðar vel tekið enda hafi slíkt úrræði lengi vantað.

En áður en hún gat stofnað úrræðið þurfti hún sjálf að ná bata og vinna úr sínum eigin sársauka. „Ég fer í gegnum mjög langt ferli, vinna úr minni æsku, melta þetta og kannski losna við reiðina líka. Eftir að ég klára það þá fannst mér ég tilbúin í þetta verkefni, að gera eitthvað sem að gæti stutt við börn foreldra með geðrænan vanda á Íslandi,“ segir hún í samtali við Viktoríu Hermannsdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1.

Enginn stuðningur í skólanum

Sigríður bjó með veikum aðstandanda og segir hún kerfið ítrekað hafa brugðist sér. „Ég ólst upp hjá móður með alvarlegan geðrænan vanda,“ segir hún um æskuna.

Hún segir allt of algengt á Íslandi að börn fari í gegnum félagslega kerfið og skólakerfið án stuðnings líkt og hún hafi gert. Sjálf upplifði hún að enginn hefði talað við hana eða séð hana. „Miðað við það sem ég hef heyrt á Íslandi og þá aðila sem ég hef hitt, þá er þetta bara mjög algengt. Því miður.“

Í grunnskóla segir Sigríður að skólayfirvöld hafi verið meðvituð um ástandið á heimili hennar að einhverju leyti, en samt hafi ekkert verið gert til að styðja hana. „Ég var í sama skóla öll grunnskólaárin mín og skólinn vissi af veikindum móður minnar en aðhafðist ekkert. Ég fékk engan stuðning í skólanum,“ segir hún.

Þurfa að skilja að foreldrið er veikt en ekki vont

Æskilegt væri að börn og unglingar ættu griðastað í skólanum sínum þar sem hægt væri að leita til starfsfólks en svo hafi ekki verið í hennar tilfelli. „Það var því miður ekki og er bara eins og við höfum séð hjá okkur, það skortir eitthvað þarna. Það er ekki að starfsfólk grunnskóla vilji ekki styðja við börnin en það skortir einhverja fræðslu, einhver tól. Eitthvað til að geta stutt við þennan hóp sem er svo mikilvægt,“ segir hún.

Það sé afar mikilvægt að börn fái hjálp í þessum aðstæðum og að þeim finnist þau ekki vera ein. Að það sé talað við þau og hlustað á þau. „Að maður fái útskýringar á öllum þroskastigum. Maður skilji hvað er að gerast, að foreldrið sé veikt, það sé ekki vont,“ segir hún.

Sannfærði dóttur sína um að það væri eitthvað hættulegt á seyði

Sjálf áttaði móðir Sigríðar sig ekki á veikindum sínum að sögn Sigríðar sem segist heldur ekki hafa trúað því að mamma hennar glímdi við geðrænar áskoranir fyrr en hún var byrjuð að vaxa úr grasi. „Þannig að ég var orðin líklegast níu eða tíu ára þegar ég áttaði mig á því að hún væri veik. Það er líka mjög ruglandi,“ segir hún.

Veikindi móður Sigríðar hafi meðal annars lýst í miklum ranghugmyndum. Móðir hennar hafi oft verið hrædd og sannfært dóttur sína um að það væri eitthvað hættulegt á seyði sem þyrfti að varast. „Ég man eftir mér mjög ungri inni í þessum ranghugmyndum þar sem við mamma vorum að fela okkur fyrir einhverju hættulegu fólki, eða einhver sem var jafnaldri minn átti að vera eitthvað,“ rifjar Sigríður upp. Það hafi verið flókið fyrir sig að vera barn í þessum aðstæðum og að fara inn í þessar ranghugmyndir með móður sinni. „Það er erfitt að leiðrétta það ef það er ekki gert á staðnum. Svo er maður orðinn fullorðinn og bara vá ég sé heiminn mjög skringilega.“

Óalgengt að feður fengju forræðið

Þegar Sigríður var fimm ára skildu foreldrar hennar og þá tók við þriggja ára forræðisdeila þeirra á milli. „Við fengum ekki að hitta föður minn í þrjú ár, sem endar með því að hann fær forræðið á okkur fjórum. Sem var mjög merkilegt á þessum tíma. Árið 1998.“

Þá fluttu systkinin til hans. Á þeim tíma var afar sjaldgæft að faðir fengi forræði yfir fjórum börnum. „Það er bara eitthvað sem varla gerðist,” segir Sigríður. Þótt henni liði vel hjá föður sínum þráði hún vera hjá móður sinni og fannst hún bera ábyrgð á henni. 

Þráði að fara aftur til móður sinnar að aðstoða hana

„Þetta er mamma mín og ég elskaði hana svo ótrúlega mikið og ég vissi að hún þurfti á mér að halda,“ rifjar hún upp. „Ég hugsa að þetta hafi verið sambland af ótrúlegri ást til móður minnar og meðvirkni. Mér leið svo vel hjá pabba, elskaði hann mikið og fann fyrir öryggi, en hann þurfti mig ekki. Mamma þurfti mig,“ segir hún. 

Faldi veikindi móður sinnar og mætti ekki í skólann

Um tólf ára aldur flutti Sigríður aftur til móður sinnar sem var þá farin að veikjast mikið samkvæmt Sigríði. Sjálf hafi hún passað vel upp á að fela veikindi móður sinnar fyrir umheiminum.

Móðir hennar starfaði sem dagmóðir og Sigríður tók á sig að hjálpa henni að halda starfinu. Hún mætti þar af leiðandi illa í skólann og átti ekki griðastað þar eins og hún hefði viljað. Heima bjó hún svo við afar erfiðar aðstæður og jafnframt erfiðar tilfinningar vegna þess að henni var mikið í mun að vernda móður sína.

Erfitt að sá sem elskar beiti ofbeldi

„Ég læsti alltaf herberginu mínu á nóttunni, næturnar voru svo erfiðar. Mamma var að gera alls konar hluti og ég var mjög hrædd. Þannig að ég var stanslaust í fight or flight, bara alltaf. Ég var alltaf hrædd um líf mitt, ég var alltaf hrædd um hvað mamma myndi gera,“ segir hún.

„Það er mjög flókið að elska einhvern svona mikið eins og ég gerði. Og vilja berjast fyrir einhvern, á sama tíma og veikindi hennar gerðu það að verkum að hún var mjög vond við mig. Það er líka mjög erfitt að mótast í þannig umhverfi; að einhver sem maður trúir að elski mann sé að beita mann ofbeldi.“

Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Gísladóttir - Aðsend

Veiktist þegar móðir hennar var nauðungarvistuð

Sigríður var sautján ára þegar móðir hennar var nauðungarvistuð og segir að það hafi verið mikill léttir. „Að það ætlaði loksins einhver að grípa hana,“ segir hún.

Sama dag hafi hún sjálf veikst illa af átröskun. „Maður var búinn að halda sér í ástandi að berjast og berjast en um leið og ég vissi að einhver væri að taka við henni þá brotnaði ég niður.“

Hún fór sjálf í átröskunarmeðferð og var alvarlega veik í fimm ár. „Ég var komin á hættulegan stað líkamlega, var með hjartavandamál og mikið inni á spítala,“ rifjar hún upp. Hún átti erfitt með að ná bata þar til að hún áttaði sig á að rót vandans lægi í áföllum æskunnar. „Það er ekki fyrr en ég fór að vinna úr áfallinu sem ég fór að ná bata,“ segir hún.

Erfið ákvörðun að loka á foreldri sitt

Í dag segist Sigríður ekki hugsa mikið um æskuna og í kringum hugsanirnar sé ekki sama reiði og sorg og áður var. „Það er notaleg tilfinning að geta hugsað um æskuna og ekki fundið fyrir sársauka og kannski líka að hugsa um góðu tímana,“ segir hún.

Sjálf er hún ekki lengur í sambandi við móður sína en segir að það sé ein erfiðasta ákvörðun sem hægt er að taka, að loka á foreldri sitt. „En ég var búin að vera lengi hjá sálfræðingum að vinna úr minni æsku og lendi einhvern veginn alltaf á vegg sem ég átta mig svo á að er því ég er enn í sambandi við mömmu og verð einhvern veginn aftur barn í samskiptum við hana, því maður fer aftur í þetta hlutverk. Þó ég sé búin að kúpla mig út úr því,“ segir hún.

Loks hafi hún áttað sig á að hún þyrfti að rjúfa samskiptin og það hafi hjálpað henni í bataferlinu. „Það er rosalega erfitt að græða sár úr æskunni og jafna sig á ofbeldi á meðan þú ert enn í samnskiptum við aðilann sem beitti þig ofbeldi, þó það sé foreldri þitt. Og ég þurfti að taka þá ákvörðun,“ segir hún.

Viktoría Hermannsdóttir ræddi við Sigríði Gísladóttur í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á viðtalið í fullri lengd í spilara RÚV.