
Burhan segir herstjórnina ætla að stíga til hliðar
Abdel Fattah al-Burhan, leiðtogi hersins lýsti þessu yfir í sjónvarpsávarpi í gær og sagði að herinn stigi til hliðar úr samningaviðræðum sem Sameinuðu þjóðirnar og samtök ríkja á svæðinu hafa komið á.
Þannig sagðist Burhan vilja skapa rými fyrir pólítísk öfl og andófsmenn til að koma á borgaralegri stjórn í landinu. Helstu leiðtogar borgaralegra afla þvertóku fyrir þátttöku í viðræðunum sem hófust í síðasta mánuði.
Hið sama á við um fulltrúa óformlegra andófshópa sem komu fram á sjónarsviðið í aðdraganda uppreisnarinnar gegn einræðisherranum Omar al-Bashir árið 2019.
Herinn vék borgaralegri ríkisstjórn frá völdum í október í fyrra, handtók ráðherra og borgaralega embættismenn. Ríki heims og alþjóðastofnanir fordæmdu athæfið og mannskæð mótmæli brutust út í landinu.
Burhan flutti ávarp sitt á fimmta degi nýjustu hrinu mótmæla en á fimmtudag féllu níu manns fyrir hendi öryggissveita hersins. Samkvæmt frétt AFP-fréttaveitunar virðast mótmælendur ekki trúaðir á loforð Burhans og segjast ætla að fella stjórn hans líkt og al-Bashirs árið 2019.
Burhan sagði að í kjölfar valdaskipta yrði fullveldisráðið svokallaða leyst upp, sem hefur undir stjórn Burhans ráðið ríkjum. Þess í stað yrði nýtt hernaðarráð sett á laggirnar sem eingönu væri ætlað að sinna öryggis- og varnarmálum.