Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bændasamfélagið einkenndist af meira jafnrétti

05.07.2022 - 15:14
Mynd með færslu
 Mynd: facebook síða - Tveir dalir - RÚV
Umfangsmiklar fornleifarannsóknir hafa staðið yfir í sumar og fyrrasumar í Hörgárdal og Svarfaðardal. Niðurstöður styðja þá kenningu að bændasamfélagið hafi verið jafningjasamfélag þar til höfðingjastétt varð til á tólftu öld.

Skoða þróun stéttakerfa við Eyjafjörð

Rannsóknarverkefnið heitir Tvídæla og hafa fræðimenn verið við rannsóknir í dölunum tveimur, í Svarfaðardal í fyrra og í Hörgárdal í sumar.

„Það gengur út á að skoða þróun stéttakerfa við Eyjafjörð frá landnámi og fram yfir Svartadauða, til 1500 eða svo,“ segir Árni Daníel Júlíusson, sérfræðingur við hugvísindasvið Háskóla Íslands og annar verkefnastjóra rannsóknarinnar.

„Þetta er þverfagleg rannsókn. Við erum með sagnfræðinga, fornleifafræðinga, fornvistfræðinga og jarðfræðinga. Þetta er stór hópur sem kemur að rannsóknni sem kemur að rannsókninni, 20-30 manns.“

Mynd með færslu
 Mynd: facebook síða - Tveir dalir - RÚV
Hluti rannsóknarteymisins

Varð stéttskiptara upp úr 12. öld

Hópurinn hefur skoðað þær rituðu frumheimildir sem til eru frá tímabilinu og sett fram ákveðna kenningu og skoða fornleifar út frá henni. Kenningin er að bændasamfélagið hafi einkennst af nokkru jafnrétti.

„Það er margt sem bendir til þess að þetta hafi verið tiltölulega jafnréttissinnað samfélag en það hafi síðan smám saman breyst. Um 1200 er komin fram höfðingjastétt sem á jarðir og þá er einnig komin svona lágstétt hjábýlabænda,“ segir Árni.

Þannig að bændastéttin var sósíalískara samfélag fyrir 12. öld?

„Já, svo varð breyting, á þann hátt að yfirstétt myndaðist.“

Teknir hafa fjölmargir könnunarskurðir og sýni sem verða rannsökuð áfram. Í kvöld, 5. júní klukkan 20:00, taka rannsakendur á móti almenningi í Staðartungu í Hörgársveit og segja frá rannsókninni og því ljósi sem hún varpar á fortíðina. 

Mynd með færslu
 Mynd: facebook síða - Tveir dalir - RÚV
Hluti þeirra muna sem grafnir hafa verið upp