Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tveir af sex stjórnarmönnum nota strætó reglulega

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Tveir af sex fulltrúum í stjórn Strætó nota strætó reglulega. Stjórn Strætó er skipuð einum fulltrúa frá hverju aðildarsveitarfélagi; Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi.

Sætið í stjórn strætó er eitt þeirra embætta sem nýkjörnar sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu skipa í. Fréttastofa lagði sömu spurningar um strætónotkun fyrir alla stjórnarmenn í nýrri stjórn Strætó. 

Mynd með færslu
 Mynd: Strætó

Gott að nota tímann í strætó

Alexandra Briem frá Pírötum er fulltrúi Reykjavíkur. Alexandra á ekki bíl og tekur strætó að jafnaði nokkrum sinnum í viku. „Ég geng og nota leigubíl líka en reyni að nota strætó sem oftast ef það hentar, það er líka svo gott að nýta tímann í strætó til að vinna eða hlusta á hljóðbók eða eitthvað slíkt,“ segir Alexandra. Hún segist hafa sóst sérstaklega eftir sætinu í stjórn strætó sem notandi þjónustunnar. 

Notar strætó daglega en bílinn í snatt

Sjálfstæðismaðurinn Andri Steinn Hilmarsson er fulltrúi Kópavogs. Hann notar strætó að jafnaði daglega. Einn bíll er á heimili Andra en konan hans notar hann oftar til að fara í vinnuna á meðan Andri tekur strætó. „Ég nota bílinn meira í snatt en tek yfirleitt strætó í vinnuna,“ segir hann. Andri segist hafa sóst eftir því sem notandi strætó að fá sæti í stjórinni. „Ég tel að almenningssamgöngur eigi mikið inni og hef áhuga á að taka þátt í að bæta þjónustuna og skilvirkni hennar.“

Væri gott að kynna sér strætó betur

Hrannar Bragi Eyjólfsson er Sjálfstæðismaður og fulltrúi Garðbæinga í stjórninni. Hann fer flestra sinna ferða á einkabíl og segir að það sé svolítið síðan hann tók síðast strætó, heldur að það hafi verið síðasta sumar. „Ég tek sjaldan strætó en geri það stundum þegar ég er að fara á skemmtanir niðrí bæ eða eitthvað svoleiðis. Ég hugsa að ég hafi farið síðast á 17. júní eða menningarnótt í fyrra.“ Hrannar segist einmitt hafa verið að hugsa um að það væri gott að kynna sér þjónustu Strætó betur með því að fara í strætó eftir að hann var skipaður í stjórn.  

Hrannar segist hafa verið ánægður að fá tækifæri til að starfa að samgöngumálum með því að fá sæti í stjórn Strætó vegna þess að í Samgöngusáttmálanum séu ýmsar áhugaverðar breytingar sem snúi að Garðabæ, svo sem að setja Hafnarfjarðarveg í stokk. „Ég tel að það séu sóknartækifæri í að bæta almenningssamgöngur í Urriðaholti og á Álftanesi,“ segir Hrannar sem vill líka vinna að því að notkun almenningssamgangna verði algengari meðal ungs fólks eins og víðast í löndunum í kringum okkur. 

Fór örugglega í strætó einhvern tíma á þessu ári

Kristín Thoroddsen er líka bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks en í Hafnarfirði. Hún telur að hún hafi síðast farið í strætó einhvern tíma á þessu ári og að hún fari að jafnaði nokkrum sinnum á ári. Hún segir það hafa áhrif að hún búi bæði og starfi í Hafnarfirði. Hún notar fjölbreytta ferðamáta frá degi til dags, gengur, hjólar og notar einkabíl. Hún segist hafa sóst eftir að fá að taka sæti í stjórn Strætó til að leggja sitt af mörkum í samgöngumálum. „Samgöngur milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur eru oft erfiðar, sérstaklega á morgnana og seinni partinn. Ég vil leggja mitt af mörkum til að bæta það, það er til mikils að vinna,“ segir Kristín.

Stendur alltaf til að auka strætónotkun

Lovísa Jónsdóttir er bæjarfulltrúi Viðreisnar í Mosfellsbæ. Aðalsamgöngumáti Lovísu er einkabíll. Hún segist ekki nota strætó reglulega, þó nokkrum sinnum á ári, síðast fyrir tveimur til þremur mánuðum. „Það stendur alltaf til að auka strætónotkunina en það er erfitt að brjóta gamlar venjur,“ segir hún. Þegar verið var að skipta niður verkum í sveitarstjórn Mosfellsbæjar kom stjórnarsetan í Strætó í hlut Lovísu, hún segist vilja hafa áhrif til góðs í samgöngumálum og að þar geti hennar menntun sem viðskiptalögfræðingur nýst vel. 

Fulltrúi Seltjarnarness í stjórninni er sjálfstæðismaðurinn Magnús Örn Guðmundsson. Hann svaraði ekki spurningum fréttastofu. 

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir