Loftmengun fer iðulega yfir viðmiðunarmörk í Teheran. Mynd: EPA-EFE - EPA
Kröftugur sandbylur varð til þess að opinberum skrifstofum, háskólum og öðrum skólum var lokað í dag í Teheran, höfuðborg Írans. Þá fengu dómarar og aðrir starfsmenn dómstóla í borginni að halda sig heima.
Ríkisfréttastofan IRNA hefur eftir mengunareftirlitinu í Teheran loftmengun af völdum ryks og sands hafi verið yfir hættumörkum. Skyggni var slæmt í borginni. Í nágrannahéraðinu Alborz, vestan við höfuðborgina var öllum skrifstofum lokað, svo og bönkum og vísindastofnunum, að sögn fréttastofu ríkissjónvarpsins.
Sandbylir hafa löngum gert íbúum í landshlutunum erfitt fyrir. Þeim hefur fjölgað á undanförnum árum og þeir hafa verið kröftugri en áður fyrr. Loftslagsbreytingum er kennt um og sömu leiðis ofbeit og skógarhöggi.