Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ljósvaki og Þráinn leiða í keppni þeirra bestu

Árni Björn Pálsson og Ljósvaki frá Valstrýtu á Landsmóti hestamanna 2022.
 Mynd: Hulda G. Geirsdóttir - RUV

Ljósvaki og Þráinn leiða í keppni þeirra bestu

04.07.2022 - 21:19
Skjóttir stóðhestar í fremstu röð áttu sviðið í keppni gæðinga á Landsmóti hestamanna á Gaddstaðaflötum við Hellu í dag, en þeir Ljósvaki frá Valstrýtu, setinn af Árna Birni Pálssyni og Þráinn frá Flagbjarnarholti, setinn af Þórarni Eymundssyni, tróna á toppnum eftir forkeppni.

 

Forkeppni í B-flokki gæðinga, þar sem sýndar eru fjórar gangtegundir, hófst í rjómablíðu klukkan átta í morgun og strax varð ljóst að þar yrði boðið upp á stórsýningar enda fór svo að til þess að ná inn í 30 hesta milliriðil þurfti einkunnina 8,56. Árni Björn og Ljósvaki áttu stórsýningu, bæði á tölti og brokki þar sem gríðarmikill fótaburður, fas og rými einkenndu sýninguna. Þrír dómarar af fimm gáfu enda einkunn um 9, en lokaeinkunn þeirra félaga var 8,94. Annar var Tumi frá Jarðbrú, setinn af Jakobi Svavari Sigurðssyni með 8,85 og þriðji Þór frá Stóra-Hofi, setinn af Viðari Ingólfssyni með 8,82.  

Forkeppni í B-flokki ungmenna hófst eftir hádegi þar sem 80 ungmenni á aldrinum 18-21 árs öttu kappi. Keppnin var jöfn og spennandi og aðeins brot sem skilja efstu keppendur að. Signý Sól Snorradóttir leiðir eftir forkeppni á Kolbeini frá Horni I með einkunnina 8,76, Benedikt Ólafsson fylgir þar fast á eftir á Biskupi frá Ólafshaga með 8,75, en þeir félagar unnu einmitt unglingaflokkinn á landsmóti fyrir fjórum árum og þriðja eftir forkeppni er Glódís Rún Sigurðardóttir á Drumbi frá Víðivöllum fremri með 8,72.  
 
A-flokkur gæðinga, þar sem allar fimm gangtegundir eru sýndar, stóð svo yfir frá seinniparti og vel fram á kvöld enda rétt tæplega 100 hross skráð til leiks. Þórarinn og Þráinn voru snemma í braut og áttu sterka sýningu á öllum gangtegundum sem skilaði þeim meðaleinkunninni 8,85 og héldu þeir forystunni út keppnina. En það sama átti við í A-flokki og hjá ungmennum, að mjótt var á munum, önnur er Askja frá Efstu-Grund, sýnd af Hlyni Guðmundssyni með 8,82 og þriðji er Goði frá Bjarnarhöfn með 8,81 sýndur af Daníel Jónssyni.  Til að ná í milliriðil þurfti einkunnina 8,53 eða hærra. 

Milliriðlar 30 efstu hesta í þessum flokkum fara svo fram á miðvikudag og þar ræðst hverjir komast alla leið í úrslitin.  

Sýningar kynbótahrossa hafa farið fram samhliða gæðingakeppninni og halda þær áfram á morgun, en þá taka við á keppnisvellinum milliriðlar barna- og unglinga, auk forkeppni í fimmgangi og tölti.  

Allar nánari niðurstöður af mótinu má nálgast á LH Kappa appinu og kynbótadóma er að finna í gagnagrunninum WorldFeng.