Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm leituðu til borgaraþjónustu vegna skotárásarinnar

04.07.2022 - 08:12
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Yfir tíu þúsund íslenskir ríkisborgarar eru búsettir í Danmörku. Þá eru ótalin þau sem eru á ferðalagi. Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins segir að fimm íslendingar hafi haft samband við borgaraþjónustuna og þurft aðstoð vegna skotárásarinnar í Kaupmannahöfn síðdegis í gær.

„Einhverjir vildu komast heim strax og óskuðu eftir aðstoð við að fá upplýsingar eða aðstoð við að bóka flug sem fyrst frá Kaupmannahöfn. Aðrir voru auðvitað í áfalli, sem voru í verslunarmiðstöðinni þegar árásin var gerð og þurftu á áfallahjálp að halda. Í sendiráðinu í Kaupmannahöfn er starfandi sendiráðsprestur sem getur sannarlega komið að málum. Sem betur fer var enginn af þeim sem höfðu samband við utanríkisþjónustuna hafði orðið fyrir árásinni, hafði orðið fyrir skotum eða neitt því um líkt. En að vera á vettvangi er mikið áfall fyrir alla og því hefur fólk haft samband,“ segir Sveinn.

Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn biðlaði til Íslendinga að láta aðstandendur vita af sér í kjölfar árásarinnar í gær. Sveinn segir að viðbragð borgaraþjónustunnar við svona atburðum sé æft reglulega. Fólk geti leitað til prestsins í sendiráðinu ef það þurfi aðstoð eða áfallahjálp.

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV