Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Blómvendir lagðir við vegi til að minnast látinna

04.07.2022 - 00:35
Færeyingurinn Ingi Gunnarsson átti frumkvæði að því árið 2000 að leggja blóm við vegarkanta þar sem fólk hefur farist í umferðarslysum. Það hefur verið gert síðan þá og alltaf fyrsta sunnudag í júlí.
 Mynd: KVF
Blómvendir voru lagðir við vegbrúnir um allar Færeyjar í dag til að minnast þeirra sem farist hafa í umferðarslysum. Allt frá árinu 2000 hefur fyrsti sunnudagur í júlí verið helgaður minningu þeirra.

Eitt banaslys varð í umferðinni í Færeyjum á síðasta ári. Tólf ára stúlka lést í desember við alræmd gatnamót nærri brúnni sem tengir Straumey og Austurey.

KVF greinir frá. Undanfarin ár hafa afar fá banaslys orðið í umferðinni og tvö ár í röð lést enginn. Það er Ingi Gunnarsson sem á veg og vanda að þeim sið að leggja blóm við vegarkanta þar sem fólk hefur beðið bana.

Hann gerði það sjálfur í fyrsta sinn árið 2000 og skipuleggur minningardaginn enn ásamt fleiri sjálfboðaliðum. Einstaklingar, fyrirtæki og umferðarráð Færeyja styðja framtakið fjárhagslega.

Auk þess sem blómum er dreift eru haldnar bænastundir fyrir fórnarlömb umferðarinnar og aðstandendur þeirra í kirkjum þjóðkirkjunnar og bænahúsum annarra safnaða.