Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Á varðbergi vegna kartöflumyglu á Suðurlandi

Mynd með færslu
 Mynd: pixabay
Hætta er á að kartöflumygla verði til ama á Suðurlandi í ár, annað árið í röð. Kartöflubóndi í Þykkvabæ segist fylgjast sérstakalega vel með ökrunum, sem líti þó vel út það sem af er sumri.

Kartöflubændur á Suðurlandi fylgjast sérstaklega vel með kartöflugrösum í ár. Í fyrra smituðust kartöflugrösin í Þykkvabæ af kartöflumyglu í fyrsta skipti í 20 ár.

Fyrst svartir blettir og svo visna kartöflugrösin

Væta í bland við hlýindi skapaði kjöraðstæður fyrir kartöflumyglu á Suðurlandi í fyrrasumar. Kartöflumygla er plöntusjúkdómur sem drepur kartöflugrös sé ekkert að gert. Þegar grösin taka að mygla birtast svartir blettir á blaðendum og stönglum og loks visnar plantan alveg og fellur.

Almenningur fylgist vel með sínum kartöflugörðum

Matvælastofnun sendi út tilkynningu í byrjun mánaðar og minnti almenning á að fylgjast vel með sprettu kartöfluplantna sinna. Ef þær sýna einkenni smits sé mikilvægt að taka þær strax upp og farga þeim til að hindra að smitið breiðist út.

Birkir Ármannson, kartöflubóndi í Þykkvabæ, segir að sprettan hafi verið góð það sem af er sumri og von sé á fyrstu uppskeru á næstu dögum. Hann bindur vonir við að áfram verði milt í veðri. Hann er viðbúinn því að bregðast við myglu annað árið í röð. Mikið tjón varð á ökrum hans í fyrra.

Myglan þrífst í hlýindum og raka

„Við viljum helst hafa svona veðráttu eins og er búin að vera núna um helgina. Svona þurrt veður og ekki mjög hlýtt á nóttunni. Því myglan þrífst yfir 9 gráðum ef það er líka raki. Þannig að suðvestan- og suðaustan áttin er okkur erfið ef það er mikill raki hérna á Suðurlandinu“, sagði Birkir.

Geta bjargað uppskerunni með sveppalyfi

Komi mygla upp í ár segir Birkir að lykilatriðið sé að grípa hana nógu snemma. Þá sé hægt að nota sveppalyf í litlu magni til að hefta útbreiðsluna. Lyfið sé þó dýrt og ákjósanlegt væri að komast hjá notkun þess. Birkir segir lyfið algerlega skaðlaust plöntum og neytendum.

Er þetta högg fyrir búskapinn, þó þið náið að grípa þetta nógu snemma?

„Já, mjög. Þetta er töluverður kostnaður, lyfið er mjög dýrt. Þetta er svona með öll lyf, sama hvort það er í apótekinu eða keypt í þetta, þetta er allt dýrt“, sagði Birkir.