Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Markmiðið að vinna leik

Mynd: RÚV / RÚV

Markmiðið að vinna leik

03.07.2022 - 16:35
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta leikur sinn fyrsta leik á Evrópumeistaramótinu í Englandi eftir slétta viku. Liðið mætir þá Belgíu í Manchester klukkan 16:00 og verður leikurinn í beinni á RÚV og EM stofan auðvitað á sýnum stað fyrir og eftir leik. Þorsteinn Halldórsson, þjálfari liðsins, segir liðið ætla að taka einn leik í einu á mótinu.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðiðsins í fótbolta, segist líta jákvæðari augum á leik liðs síns gegn Póllandi nú en þegar leiknum lauk. Honum hafi upphaflega fundist leikur liðsins góður í seinni hálfleik en slakur í þeim fyrri.

„Það var mikið af möguleikum til búa til dauðafæri. Við vorum náttúrulega að fá einhver færi en við fengum fullt af góðum sénsum til að skapa meira. Það var margt jákvætt í fyrri hálfleik, sérstaklega fyrri helmingurinn af honum. Auðvitað komi kafli þarna um miðbik og seinni part fyrri hálfleiks sem var ekkert sérstakur en alls ekkert slakur,“ segir Þorsteinn í viðtali við KSÍ.

Mikill hiti í Þýskalandi

Liðið er við æfingabúðir í Þýskalandi þessa dagana áður en það heldur til Englands í vikunni. „Við förum að fara meira yfir í taktíska hluti og bara skerpa á liðinu og gera okkur klár fyrir England,“ segir Þorsteinn og segir aðstæður í Þýskalandi góðar þó mikill hiti sé á svæðinu. „Ég held að það sé gott fyrir okkur að kúpla okkur út og svo mætum við fersk til Englands eftir nokkra daga.“

En hvert er markmið liðsins fyrir mótið? „Í grunninn er markmiðið að vinna leik. Ef við vinnum leik þá er allt hægt. Við þurfum að mæta í fyrsta leik og reyna að vinna hann og svo er það bara næsti leikur og vinna hann.“

EM í fótbolta hefst 6. júlí en fyrsti leikur Íslands verður 10. júlí gegn Belgum. RÚV sýnir beint frá mótinu öllu.