Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Léleg leið til að koma skilaboðum á framfæri“

03.07.2022 - 16:20
Innlent · Akureyri · FH · N1 · Þróttur
Mynd með færslu
 Mynd: ka.is - RÚV
Eitt lið Þróttar mætti ekki á sinn síðasta leik gegn liði FH á knattspyrnumótinu á Akureyri sem lauk í gær en þar leika börn í 5. flokki. Ástæðan var framkoma liðs FH fyrr á mótinu sem Þróttarar töldu langt frá því að vera viðeigandi. Þórður Einarsson, yfirþjálfari Þróttar segir að þjálfarar liðsins hafi metið það svo að enginn ávinningur væri fyrir liðið að taka þátt í leiknum.

Þróttur sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöld þar sem gerð var grein fyrir þeirri ákvörðun að láta eitt lið félagsins ekki spila sinn síðasta leik. Segir þar að lið á mótinu hafi sýnt framkomu sem eigi ekki að sjást á knattspyrnuvellinum. 

„Við verðum að tryggja það að á móti hjá krökkum að þau geti spilað án þess að líða illa eða vera hrædd við verkefnin. Við sem erum að þjálfa þurfum fyrst og fremst að taka ákvörðun sem varðar okkar iðkendur. Þegar við skoðuðum þetta mál þá var betra fyrir okkur að sleppa þessum leik. Líka með því að senda út þau skilaboð að við tökum aðeins meiri festu í agamálum á þessum mótum,“ segir Þórður. 

Upplifun FH að liðið hafi verið til sóma

Þjálfarar Þróttar ræddu við mótshaldara og þjálfara FH vegna hegðunar liðsins en tóku ekki ákvörðun fyrr en rétt fyrir leikinn að hann skyldi ekki spilaður. Þórður segir að mótshaldarar hafi sýnt málinu skilning en þeir væru í erfiðri stöðu þar sem um væri að ræða börn. Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH, segir að það hafi komi flatt upp á liðið þegar Þróttarar mættu ekki til leiks. Hann segir að það hafi verið hart barist í leikjum á mótinu en þátttakendur séu 12 ára börn. 

„Við FH-ingar viljum að sjálfsögðu að iðkendur okkar sýni aga og beri virðingu fyrir andstæðingum, þjálfurum andstæðinga og mótshöldurum. Við erum að sjálfsögðu ekki ánægð með það ef það tekst ekki. Mín upplifun af okkar strákum er að þeir sýndu öllum virðingu og voru félaginu til sóma.  Enn og aftur þá eru þetta 12 ára börn. Mér finnst þetta ótrúlega  léleg leið til að koma þessum skilaboðum á framfæri,“ segir Davíð Þór. 

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Davíð Þór Viðarsson yfirmaður knattspyrnumála hjá FH.
urduro's picture
Urður Örlygsdóttir