Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kanna hvort íslensk heimili greiði meira

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra, hefur skipað starfshóp til að greina gjaldtöku og arðsemi bankanna. Markmiðið er að kanna hvort íslensk heimili greiði meira fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu en heimili í hinum norrænu ríkjunum.

Lilja segir að stærsta verkefni hagstjórnarinnar sé að koma böndum á verðbólguna sem mældist 8,8 prósent í síðasta mánuði. 

„Það er mikilvægt að við könnum stöðuna á öllum okkar helstu mörkuðum. Til að mynda hver þróunin hefur verið varðandi gjaldtöku fjármálafyrirtækja. Vegna þess að stór hluti af útgjöldum heimilanna rennur til bankanna í formi húsnæðislána, bílalána og ýmsum neyslulánum.“ 

Lilja segir að vegna þessa sé mjög brýnt að stjórnvöld fylgist vel með hvort gjaldtakan sé eðlileg. „Við höfum engar forsendur á þessu stigi til að ætla að hún sé það ekki en þegar staða efnahagsmála er eins og hún er þá er brýnt að við skoðum alla þætti sem geta haft neikvæð áhrif á verðbólguþróun.“

Starfshópurinn tekur til starfa síðar í sumar undir leiðsögn dr. Daníels Svavarssonar, hagfræðings. Lilja segir ótímabært að fara nánar út í starf hópsins fyrr en vinna er almennilega komin af stað. „Eitt af því sem við tökum eftir er að starfsfólki í fjármálaþjónustu hefur fækkað verulega vegna þess að það hefur átt sér stað mikil sjálfvirknivæðing en við erum ekki að sjá það í verðlækkunum á slíkri þjónustu.“