Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fylgi VG aldrei minna en nú - þörf á innri skoðun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, segir að flokkurinn þurfi að velta fyrir sér fylgistapi í skoðanakönnunum. Flokkurinn mælist með 7,2 prósent í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup og hefur ekki áður mælst með jafn lítið fylgi. Bjarkey segir flokkinn þurfa að velta fyrir sér stöðu hreyfingarinnar og fara í innri skoðun.

„Það er sannarlega hægt að segja að það er áhyggjuefni þegar við sígum svona langt niður. En þetta er jú bara einhver ein könnun og hana ber að taka varlega í stóra samhenginu. Engu að síður þá held ég að við þurfum aðeins að velta þessari niðurstöðu fyrir okkur og bara stöðu hreyfingarinnar í sjálfu sér í ljósi þess að kannanir hafa sýnt að við höfum aðeins farið niður á við,“ segir Bjarkey.  

En hvað á Bjarkey við með að VG þurfi að velta fyrir sér stöðu hreyfingarinnar? 

„Það er alltaf á hverjum tíma  nauðsynlegt að hreyfing fari í ákveðna innri skoðun. Við komum ekki nógu vel út úr sveitarstjórnarkosningunum heldur. Þannig að ég held að fram undan sé að byggja okkur upp inn á við og það er kannski það sem ég er að tala út í,“ segir Bjarkey. 

Bjarkey telur að margt skýri slakt fylgi flokksins. 

„Kjörtímabilið á Alþingi er auðvitað nýhafið. Sama í sveitarstjórnum. Ég held að við þurfum að sjá að okkar góðu verk sem við höfum áform um, nái fram að ganga. Þá held ég að þetta snúist okkur í vil,“ segir Bjarkey.