Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Flæddi inn í bílinn upp að sætunum

03.07.2022 - 18:00
Markarfljót.
 Mynd: RÚV
Tveir björgunarsveitarhópar voru kallaðir út um klukkan tíu í gærkvöld, eftir að bíll með tveimur ferðamönnum festist í Markarfljóti.

Magnús Kristjánsson, björgunarsveitarmaður hjá Dagrenningu á Hvolsvelli, segir útkallið hafa gengið vel en aðstæður hafi ekki verið með besta móti.

Erlendu ferðamennirnir tveir komust út úr bílnum áður en björgunarsveitarfólk kom á vettvang. Bíllinn var þá dreginn upp úr ánni og fólkinu komið til byggða, rétt eftir miðnætti. Ekki var talin þörf á sjúkraaðstoð.

„Þetta gekk bara vel, þetta var mun minna um sig en fyrstu upplýsingar gáfu til kynna. Vatnið var ekki eins djúpt og útkallið hljómaði í upphafi, þannig að þetta gekk bara mjög vel,“ segir Magnús í samtali við fréttastofu.

Bílategundin ágæt í svona ferðalög ef aðstæður leyfa

Magnús segir að líðan ferðamannanna hafi verið góð, þau hafi verið tiltölulega þurr miðað við aðstæður.

„Það náttúrulega flæddi inn í bílinn og vatnið náði upp í sætin, þannig að það var orðið vont að sitja þar inni. Bíllinn var frekar nálægt landi þannig að það var maður sem við vissum af á ferðinni þarna í nágrenninu, sem við komum okkur í samband við,“ segir Magnús og bætir við að maðurinn hafi aðstoðað fólkið í land.

Fólkið var á bílaleigubíl af tegundinni Dacia Duster. Hann segir þegar aðstæður séu góðar sé slíkur bíll fínn fyrir svona ferðalög en sú hafi ekki verið raunin í gærkvöld.

„Það voru snjóskaflar á leiðinni og við teljum nú bara nokkuð gott hjá þeim að hafa komist þetta langt. Þetta var kannski ekki alveg ákjósanlegasti vegurinn til að vera á þessum bíl.“

rebekkali's picture
Rebekka Líf Ingadóttir
Fréttastofa RÚV