Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Ég er bara bestur í þessu sjálfur“ 

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég er bara bestur í þessu sjálfur“ 

03.07.2022 - 09:00

Höfundar

Söngvarinn Páll Óskar fann það fljótt að þegar kæmi að því að pródúsera lög og markaðssetja sjálfan sig væri best að taka málin í eigin hendur. Hann segir Unu Schram, tónlistarkonu, frá hallærislegu lagi sem varð geysivinsælt og hvernig hann aðskilur Pál Óskar og Palla frá hvor öðrum.

Tónlistarkonan unga, Una Schram, fékk að velja sér fyrirmynd til að ræða við, einhvern sem hún hefur litið upp til í bransanum, í Tengivagninum á Rás 1. Poppstjarnan Páll Óskar Hjálmtýsson varð fyrir valinu og sagði hann frá því þegar hann var að taka sín fyrstu skref í tónlistinni.  

Allt bröltið þess virði 

Páll Óskar segist fara hjá sér við að hafa orðið fyrir vali Unu. „Mér finnst þetta svo fallegt líka, að á efri árum er ég farinn að taka eftir því að yngra fólk og næsta kynslóð og kynslóðir, bara hvað ég er að fá mikið fallegt frá þeim,“ segir hann. Þessa dagana hefur hann verið að finna fyrir skýlausri virðingu sem hann hefur ekki alltaf fundið fyrir í gegnum tíðina. „Hún er ofsalega skýlaus núna og ofsalega falleg.“ Hann sé farinn að sjá að allt hans brölt hafi verið þess virði. 

Una segir það heldur augljóst af hverju hún valdi Pál sem fyrirmynd sína. „Palli fyrir mér er svo mikill frumkvöðull og mér finnst hann svo hugrakkur sem listamaður og sérstakur,“ segir hún. Hann hafi sérstöðu innan íslensku flórunnar og standi upp úr.  

„Þetta er ofsalega fallega sagt, og veistu, ég er alveg sammála þér,“ svarar Páll Óskar og hlær.  

Var orðinn leiður á nördahlutverkinu og stakk af  

Una og Páll Óskar eiga það sameiginlegt að þau ólust bæði upp í Vesturbænum og gengu því bæði í Hagaskóla. Þau taka þó bæði undir að þeir tímar hafi ekki verið þeir auðveldustu í lífi þeirra. „Þessi aldur, þrettán til sextán ára sem maður er í Hagaskóla, er hann auðveldur fyrir einhvern?“ segir Páll Óskar. „Það er brjálæðislega erfitt að vera unglingur, það er svo margt í gangi bæði í líkamanum og hausnum.“ 

Hagaskólinn er einnig samruni nokkurra grunnskóla í Vesturbænum og er því gríðarlega stór. „Og það er ótrúlega mikið af mismunandi persónuleikum sem blandast saman og kannski lítil umgjörð fyrir alla þessa persónuleika,“ segir Una. „Og okkur er öllum hent í sama mótið og við eigum svo bara að finna út úr þessu sjálf. Kannski er það bara gagnfræðaskóli yfirhöfuð, ég veit það ekki.“ 

Páll Óskar telur að á þessum aldri átti krakkar sig á í hvaða hlutverki þeir eru, sjálfur var hann í hlutverki nördsins. „Og ég var orðinn svo leiður á því, þarna sextán ára. Svo ég stakk krakkana af,“ segir hann. Eftir samræmdu prófin njósnaði hann til um í hvaða skóla hver og einn ætlaði að fara og valdi skólann sem fæstir ætluðu í. Þannig varð Menntaskólinn við Hamrahlíð fyrir valinu. „Mig langaði bara að fara í nýtt umhverfi þar sem ég væri ekki neitt og þekkti ekki neinn.“ 

„Og í stuttu máli sagt, í MH bara blómstraði ég,“ segir hann. „Ég sökkti mér á kaf í allt sem hét félagslíf. Og áður en ég vissi af var ég kominn í ritnefndina og var auglýsingateiknari og í leiklist og í kórnum og vídjófélaginu. Og ég elskaði þetta allt.“ Einkunnirnar voru þó ekki upp á tíu en það skipti hann engu máli vegna þess að hann vissi hvað hann ætlaði sér að verða.  

Skömmin og óttinn tekinn með móðurmjólkinni 

Pál Óskar grunaði þó alltaf að leið hans lægi í kvikmyndagerð þrátt fyrir að tónlistin hefði alltaf verið til staðar. „Ég er fæddur og uppalinn á tónlistarheimili og það er margt gott við það,“ segir hann. „Vegna þess að þar með er strax tekinn frá mér ótti við það að standa upp og troða upp.“ Hann tók eftir að mörg börn áttu við þann vanda að stríða og þorðu varla að lesa upp ljóð fyrir framan bekkinn en sjálfur kannaðist hann ekkert við þá tilfinningu. „Þannig það var búið að taka þessa skömm og þennan ótta frá mér, með móðurmjólkinni og guð sé lof fyrir það.“ 

Una kemur einnig frá músíkölsku heimili þar sem hún og pabbi hennar léku sér mikið að tónlist saman. „Fyndið, það er önnur tenging á milli okkar Palla,“ segir Una en pabbi hennar tók þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna með hljómsveitinni Synir Raspútíns þar sem Páll Óskar kynnti inn keppendur. Þá hélt Páll Óskar ræðu um hvernig eldri kynslóðin héldi að unga fólkið og sköpunargáfan væri glötuð yfir í heim tölvuleikjanna en þessi keppni væri sönnun þess að svo væri ekki. „Sem mér finnst mjög fallegt,“ segir Una.  

„Kæri mig ekki um að vera Páll Óskar heima hjá mér“ 

Una hefur verið að velta fyrir sér einlægni listamanna og hvernig þau koma fram. Páll Óskar er ekki aðeins þekktur fyrir tónlistina sína heldur einnig fyrir þá persónu sem hann hefur að geyma. Þess vegna spyr hún hvort einhver munur sé á listamanninum Páli Óskari út á við og Palla sjálfum. 

„Ég gerði mér ekki alltaf grein fyrir þessu en núna í dag geri ég það,“ segir Páll Óskar. „Ég passa svakalega vel upp á að halda Páli Óskari og Palla aðskildum.“ Af og til láni hann Páli Óskari líkama sinn líkt og dragdrottningar gera. „Í stuttu máli þá kæri ég mig ekki um að vera Páll Óskar heima hjá mér,“ segir hann og hlær. „Ég vil ekki sjá hann.“ 

Heima hjá sér er Palli mun rólegri og jarðbundnari, er slétt sama um tísku. Aftur á móti sé hin opinbera persóna Páll Óskar vissulega karakter og líkir hann sér við hinar gömlu Hollywood-stjörnur sem léku bara sama hlutverkið fjörutíu sinnum. Hann sé karakter sem er alltaf fullkominn frá toppi til táar. „Ég byrjaði að gera dragsjó árið 1991 og mér líður eins og ég sé búinn að vera í dragi síðan þá.“ 

„Ég, Palli, þarf að sæka (e. psych) mig upp í Pál Óskar, ég get lofað ykkur því. Fyrir hvert einasta gigg sem ég geri,“ segir hann og þarf að tala við líkama sinn og útskýra fyrir honum hvers konar álag hann sé að fara út í.  

Vildu gera eins hallærislegt lag og hægt væri 

Þessa dagana hlustar Una mikið á lagið Jafnvel þó við þekkjumst ekki neitt, sem gefið var út árið 1996 á plötunni Seif þrátt fyrir að hafa ekki kynnst lögum Páls Óskars fyrr en í kringum árið 2007 þegar hann átti sér endurkomu í bransann. Páll Óskar segist muna nákvæmlega hvað var í gangi árið 1996. 

„Það var brjálæðislega spennandi að gera raftónlist á þessu 90’s tímabili,“ segir hann og telur flesta hafa verið á tánum fyrir danstónlistinni. Seif platan var undir japönskum poppáhrifum þar sem hvert lag gat staðið eitt og sér og enga skýra heild var að sjá á plötunni. „Platan varð að vera eitthvað tripp,“ segir hann. 

„Þetta er brjálæðislega gott dæmi, Jafnvel þó við þekkjumst ekki neitt, um mjög vel heppnað popplag sem byrjaði sem grín,“ segir Páll Óskar. „Við vildum bara gera eins hallærislegt bít og hægt var, eitthvað bít sem var bannað á þeim tíma.“ Hann og Sveinbjörn Bjarki hafi verið í hljóðverinu með hláturkrampa yfir hve asnalegt lagið hafi verið. Hann hafi svo skeytt saman texta og melódíu á örfáum mínútum og úr varð lag.  

„Það er svo fyndið að stundum hefur maður klambrað einhverju saman á fimmtán mínútum og það verður aðal hittarinn á plötunni á meðan ég kannski ligg yfir öðrum lögum í tvö ár og svo gerist ekki neitt. Það verður hvorki fugl né fiskur,“ segir hann, þessu sé ekki hægt að stýra. 

Hins vegar sé hægt að klófesta orkuna á band þar sem hún verður að eilífu. „Ég pikka upp sömu orku núna frá þessu lagi og árið 1996, ég fer alltaf að brosa út í annað yfir hvað þetta er takkí,“ segir hann og hlær. „Ég held að það sem gerist þegar þú hlustar á þetta lag, þú ferð örugglega að brosa með þér af því að ég og Sveinbjörn Bjarki vorum í hláturkrampa. Okkar magahlátur smitast yfir.“ 

„Ég er bara bestur í þessu sjálfur“ 

Páll Óskar hefur lengi verið sinn eiginn herra þegar kemur að útgáfu og bókunum. Una spyr hann hvers vegna hann hafi ákveðið að fara þessa leið og hvaða góðu og slæmu áhrif það hafi haft. 

„Ég lærði mjög fljótt að ég er bara bestur í þessu sjálfur,“ segir Páll Óskar. Hann segir að á þeim tíma hafi Japis verið hálfgerð félagsmiðstöð fyrir poppstjörnur og þar hafi starfsmaður og góður félagi hans hvatt hann til þess að taka málin í eigin hendur.  

„Þannig að 1995 kemur fyrsta platan sem ég geri alveg í eigin mætti, alveg frá grunni,“ segir Páll Óskar og komst fljótt að því að hann sé mjög góður í að pródúsera lög. „Og ég var eiginlega bestur í að markaðssetja sjálfan mig.“ Hann hafi verið orkumikill og áttað sig á að hann hefði sterkan kjarna. „Ég er sterk manneskja og náði að takast á við álagið sem fylgdi þessari athygli sem óneitanlega kom.“ 

Vildi ekki vera böstaður  

Eftir að hafa tekið þátt í MH-sýningunni Rocky Horror Picture Show árið 1991 fór boltinn að rúlla. Strax í fyrsta blaðaviðtalinu eftir sýninguna kom hann út úr skápnum fyrir almenningi. „Því ég var kominn út hvort er fyrir mínum nánustu, og fyrst og fremst sjálfum mér. Ég vildi ekki taka sénsinn á því að vera að pukrast inni í skáp núna þegar ég fann að síminn byrjaði að hringja og fólk að biðja mig um að troða upp.“ 

Hann segist hafa ákveðið að koma út úr skápnum vegna þess að á áttunda áratugnum hafi allar hans fyrirmyndir sem hann hefði þurft á að halda verið í skápnum, George Michael, Freddy Mercury, Elton John og The Pet Shop Boys. „Allt þetta lið var í skápnum af ýmsum ástæðum,“ segir hann. „En síðan voru allir þessir gaurar nappaðir,“ segir hann og rifjar upp þegar George Michael var gómaður inni á klósetti með öðrum manni og samfélagið fór á hliðina þegar Freddy Mercury dó skyndilega úr alnæmi. „Ég vildi bara ekki vera böstaður og mér fannst pínulítið eins og þeir hefðu svikið mig,“ segir Páll Óskar. Þarna hafi verið tvöföld skilaboð sem hann fílaði ekki. „Og ég nennti ekki að vera poppstjarna í skápnum eins og George Michael.“ 

Poppið sterkt verkfæri í réttindabaráttu 

Páll Óskar segist ekki hafa vitað það þá, hann hafi verið svo einfaldur, að svo mikið af fáfróðu fólki væri til í heiminum, fólk sem gat fundið honum allt til foráttu og lét hann heyra það. Á þessum tíma voru engir samfélagsmiðlar og því öskraði fólk bara á hann úti á götu og skrifaði um hann ljótar blaðagreinar. Hann segir andstreymið hafa komið frá fullorðna fólkinu á meðan börn og unglingar tóku honum fegins hendi og skildu hvert hann væri að fara með sína tónlist.  

„Seinna meir geri ég mér grein fyrir því að poppið reyndist bara vera frekar gott verkfæri,“ segir hann. „Verkfæri í mannréttindabaráttu sem ég er allt í einu orðinn eitthvert andlit fyrir.“ Páll Óskar segist ekki hafa einbeitinguna í að sitja við borð og vera á fundum allan daginn en poppið sé hans leið til að koma skilaboðum á framfæri. 

„Ég fer ekki að nýta mér það fyrr en í seinna hollinu, í kringum comebackið. Þá er ég miklu meðvitaðri um það.“ Hann vildi prófa að semja texta um alvarlega hluti við melódískt popp sem hægt væri að dansa við. „Allt fyrir ástina platan er öll skrifuð út frá miklum sársauka og mér fannst það spennandi að prófa að blanda þessu saman.“ Það hafi gengið svona líka svakalega vel. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Una Schram fékk að spyrja Pál Óskar spjörunum úr.

Þeim Páli Óskari og Unu þykir svo fallegt hvernig listamenn eru í stöðugu samtali hver við annan, hvort sem þeir eru lífs eða liðnir. „Þetta er bara fallegasta samtal sem ég veit,“ segir Páll Óskar og samsinnir Una því.  

Rætt var við Unu Schram og Pál Óskar Hjálmtýsson í Tengivagninum á Rás 1. Viðtalið má hlusta á í heild sinni hér.