Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bæjarblöðum fækkar um tvö á viku

03.07.2022 - 12:50
Staflar af dagblöðum.
 Mynd: Gesine Kuhlmann - RGBStock
Bæjarblöðum, eða staðbundnum dagblöðum, í Bandaríkjunum hefur fækkað um tvö á viku síðustu árin samkvæmt nýrri skýrslu. Áætlað er að fimmtungur Bandaríkjamanna búi á stöðum þar sem annað hvort er aðeins eitt dagblað eða ekkert.

Í þeim sýslum þar sem ekki er neinn áreiðanlegur fjölmiðill er meiri fátækt, hærri meðalaldur og minni menntun, en á þeim stöðum þar sem öflug fréttaþjónusta er í boði, samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar sem unnin var á vegum Northwestern háskóla. Árið 2005 voru tæplega 9.000 slík dagblöð í Bandaríkjunum en í vor voru þau um 6.400.

Áhrif covid-faraldursins voru ekki eins mikil og óttast hafði verið og hefur dagblöðum fækkað um 360 síðan hann fór að breiðast út. Samhliða þessu hefur blaðamönnum á dagblöðum í Bandaríkjunum fækkað. Þeir voru 75.000 árið 2006 en eru í dag 31.000. 

„Upplýsinga-eyðimerkur“ að stækka

Vefmiðlum hefur fjölgað og segir í skýrslunni að oft snúist umfjöllun þeirra um afmörkuð málefni og að þeir séu frekar í stórborgum þar sem auðveldara sé að afla tekna. Svokallaðar „upplýsinga-eyðimerkur“ breiða úr sér og áætlað er að um 70 milljónir Bandaríkjamanna, fimmtungur þjóðarinnar, búi í sýslum þar sem er annað hvort enginn staðbundinn fjölmiðill eða aðeins einn. Í 211 sýslum Bandaríkjanna, eða í um sjö prósent sýslna, er ekkert staðbundið dagblað.

Telur þróunina ógn við lýðræðið

AP hefur eftir Penelope Muse Abernathy, einum skýrsluhöfunda, að vegna þróunarinnar sé lýðræðið og samfélagsleg samkennd í húfi. Abernathy segir að samkvæmt niðurstöðum nýrra rannsókna sé minni kosningaþátttaka og vaxandi spilling í þeim samfélögum þar sem ekki eru öflugir vef- eða prentmiðlar. Skortur á aðhaldi öflugra fjölmiðla leiði einnig til þess að auðveldara sé að dreifa villandi upplýsingum. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir