Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

3 dagar í EM: Hvaða lið vinnur mótið?

epa07984640 Womens England player Lauren Hemp (R) vies for the ball with Germany's Turid Knaak (L) during a Womens international friendly soccer match at Wembley Stadium  in London, Britain, 09 November 2019.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA

3 dagar í EM: Hvaða lið vinnur mótið?

03.07.2022 - 13:30
Evrópumeistaramótið í fótbolta kvenna hefst á miðvikudag með leik Englands og Austurríkis á Old Trafford í Manchester. En hvaða lið er sigurstranglegast fyrir mótið? England er á heimavelli og því til alls líklegt en spænska liðið hefur besta leikmann heims í sínum röðum. Hollendingar urðu Evrópumeistarar fyrir fjórum árum og Frakkar eru með gríðarsterkt lið en hafa aldrei komist í undanúrslit á EM.

Þótt augu flestra hér á landi beinast að íslenska landsliðinu í aðdraganda Evrópumótsins þá er mikil spenna fyrir því hvaða lið verður Evrópumeistari. Auðvitað fara stelpurnar okkar í hvern leik til að vinna og það er aldrei að vita hvað gerist ef þær komast á strik. Fyrir fram eru nokkur lið þó talin eiga talsvert meiri möguleika á verðlaunum á mótinu. Við lítum á fjögur þeirra, eitt úr hverjum riðli mótsins.

Þá eru auðvitað fleiri lið en hér verða talin sem geta unnið titilinn á Wembley í úrslitaleiknum í lok mánaðarins. Þar má nefna lið Svíþjóðar sem er í öðru sæti á heimslista FIFA, efst Evrópuþjóða, lið Þýskalands sem hafði orðið Evrópumeistari sex mót í röð þar til Holland vann 2017 og lið Noregs sem níu sinnum hefur komist í undanúrslit síðan 1987.

England - A-riðill

England vann Evrópumeistara Hollands 5-1 í æfingarleik í síðustu viku sem gefur þeim ensku von um nú sé komið að þeim að vinna stóran titil. Besti árangur liðsins á stórmóti er silfur á EM í Finnlandi árið 2009. Á síðasta Evrópumóti, árið 2017, tapaði liðið fyrir heimakonum í Hollandi, 3-0, sem urðu svo meistarar þremur dögum síðar.

Þjálfari liðsins, Hollendingurinn Sarina Wiegman, er einmitt sú sem stýrði Hollandi til sigurs fyrir fimm árum. Margir telja hana geta tekið liðið á næsta stig og unnið loksins til gullverðlauna. Liðið býr yfir fjölda hæfileikaríkra leikmanna á borð við Lauren Hemp, 21 árs kantmann hjá Manchester City, Fran Kirby hjá Englandsmeisturum Chelsea og Millie Bright samherja Kirby. Englendingar hafa þó áður brunnið sig á því að gera miklar væntingar til liðs síns fyrir stórmót. Ætli það hafi ekki gerst á hverju einasta stórmóti síðustu 20 ára karlamegin.

Fylgstu með þessum: Lauren Hemp, kantmaður. Fran Kirby, sóknarsinnaður miðjumaður. Millie Bright, varnarmaður.

Árangur á síðasta Evrópumóti: Undanúrslit.

Besti árangur á Evrópumóti: Silfur, 2009.

Spánn - B-riðill

Þeir sérfræðingar sem telja að Englendingar muni ekki lyfta Evrópubikarnum í sumar veðja margir á lið Spánar. Alexia Putellas er af flestum talin besti leikmaður heims og er hún ein af mörgum leikmönnum ofurliðs Barcelona sem leika með spænska liðinu. Claudia Pina er einnig meðal þeirra. Þetta 19 ára ungstirni telja margir að geti orðið besti leikmaður heims þegar fram líða stundir. Irene Paredes leikur einnig með Barcelona. Hún stýrir vörn Barca og Spánar eins og herforingi.

Ekki er þó mikil hefð fyrir árangri hjá kvennalandsliði Spánar. Liðið komst í undanúrslit EM 1997 en fór svo ekki á mótið aftur fyrr en 2013 þegar það datt út í 8-liða úrslitum. Það sama var uppi á teningnum fjórum árum síðar í Hollandi. Þá beið liðið í lægra haldi fyrir Austurríki eftir vítaspyrnukeppni.

Fylgstu með þessum: Alexia Putellas, miðjumaður. Claudia Pina, framherji. Irene Paredes, varnarmaður.

Árangur á síðasta Evrópumóti: 8-liða úrslit.

Besti árangur á Evrópumóti: Undanúrslit.

 

epa09125311 Spain's defender Irene Paredes (C) vies for the ball with Netherland's striker Lineth Beerensteyn (L) during the international friendly women's soccer match between Spain and the Netherlands held at Antonio Lorenzo Cuevas stadium, in Marbella, southern Spain, 09 April 2021.  EPA-EFE/Carlos Diaz
 Mynd: EPA
Irene Paredes er aðal varnarmaður Spánverja.

Holland - C-riðill

Fólk ætti ekki að láta blekkjast þótt England hafi kjöldregið Holland á dögunum. Um æfingarleik var að ræða og liðin ekki fengið þann undirbúning sem þau fá fyrir Evrópumótið. Þá hvíldi þjálfari Hollands, Mark Parsons, nokkra leikmenn sína í leiknum. Þar á meðal var markamaskínan Vivianne Miedema sem er af mörgum talin besti framherji heims. Aðrir áhugaverðir leikmenn liðsins eru hin 21 árs Damaris Egurrola sem lék með yngri landsliðum Spánar og Danielle van de Donk, báðar miðjumenn í Lyon.

Hollenska liðið hafði raunar ekki gert miklar rósir á stórmótum áður en það varð Evrópumeistari 2017. Liðið komst þó í undanúrslit 2009 en tapaði fyrir Íslandi í riðlakeppninni 2013 og komst ekki áfram. Fyrir þremur árum tók liðið þátt á sínu öðru heimsmeistaramóti og lenti í öðru sæti eftir tap gegn Bandaríkjunum í úrslitaleik, 2-0.

Fylgstu með þessum: Vivianne Miedema, framherji. Damaris Egurrola, miðjumaður. Danielle van de Donk, miðjumaður.

Árangur á síðasta Evrópumóti: Evrópumeistarar.

Besti árangur á Evrópumóti: Evrópumeistarar.

Frakkland - D-riðill

Sigurstranglegasta lið riðils íslenska liðsins eru Frakkar. Liðið er næst efst Evrópuþjóða á heimslista FIFA og býr yfir ógnarsterkum leikmannahópi. Varnarmaðurinn Wendie Renard er einhver sigursælasti leikmaður sögunnar. Þrítug að aldri hefur hún unnið átta Evrópumeistaratitla og 15 Frakklandsmeistaratitla með Lyon, þar af einn af hvorum í vor. Marie-Antoinette Katoto er ógnarsterkur framherji sem skoraði 32 mörk í 33 leikjum með PSG í vetur. Og ekki má gleyma samherja Katoto hjá PSG, framherjanum Kadidiatou Diani.

Spurning er þó hvernig franska liðinu muni ganga á EM. Síðustu árin hafa borist fregnir af alls kyns uppákomum og illindum innan liðsins. Þjálfari liðsins, Corinne Diacre, valdi ekki Amandine Henry í hópinn fyrir mótið þrátt fyrir að hún hafi skorað glæsilegt mark í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu og verið valinn maður leiksins í sigri Lyon á Barcelona. Annar leikmaður Lyon Eugénie Le Sommer verður heldur ekki með á EM. Talið er að þeim komi ekki saman við Diacre.

Fylgstu með þessum: Wendie Renard, varnarmaður. Marie-Antoinette Katoto, framherji. Kadidiatou Diani, framherji.

Árangur á síðasta Evrópumóti: 8-liða úrslit.

Besti árangur á Evrópumóti: 8-liða úrslit.

epa07661236 Vivianne Miedema of the Netherlands reacts during the FIFA Women's World Cup 2019 group E soccer match between the Netherlands and Canada in Reims, France, 20 June 2019.  EPA-EFE/TOLGA BOZOGLU
 Mynd: EPA
Vivianne Miedema gæti raðað inn mörkum á EM.