Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Norskur táningur handtekinn með sjálfvirkt skotvopn

02.07.2022 - 06:30
Mynd með færslu
 Mynd: OLAUG BJØRNESET/NRK
Lögregla handtók dreng á táningsaldri í þorpinu Vatne vestanvert í Noregi í nótt en hann ógnaði vegfarendum með sjálfvirku skotvopni. Tilkynning um framferði drengsins barst laust fyrir klukkan tvö í nótt að staðartíma, en óttast var að hann ætlaði sér að beita vopninu.

Lögreglan skilgreinir athæfi unglingsins sem lífshættulega og ógnandi hegðun. Norska ríkisútvarpið hefur eftir Sindre Molnes, aðgerðastjóra lögreglunnar, að allt tiltækt lið hefði verið sent af stað og að drengurinn hafi ekki veitt neina mótspyrnu.

Vopnið, sem að sögn Molnes virðist ekta AK-47 hríðskotariffill, var gert upptækt og nú er rannsakað hvort það er virkt eða hvort það hefur verið innsiglað.

Molnes segir drenginn hafa verið undir áhrifum áfengis og ekki sé vitað hvort hann hugðist beita vopninu en lögregla segir málið vera litið mjög alvarlegum augum. 

Norska ríkisútvarpið ræddi við Endre Krogseter sem segist hafa tekið vopnið af drengnum. Hann hafi verið í þann mund að ganga til náða í hjólhýsi sínu þegar hann heyrði bíl koma aðvífandi.

Þegar Krogseter kom út miðaði drengurinn byssunni á hann en sneri sér svo við til að eiga orðastað við ökumann bílsins. Þá segist Krogseter hafa hrifsað af honum vopnið og geymt það uns lögreglu bar að. Lögreglan hefur staðfest að drengurinn var óvopnaður við handtökuna.