Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mosfellsbær í viðræðum um yfirtöku Skálatúns

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mosfellsbær hefur ákveðið að fara í viðræður um yfirtöku á rekstri og skuldum Skálatúnsheimilisins fyrir árslok. Skuldir Skálatúns eru 259 milljónir króna. Stefnt er að því að breyta búsetunni og stefna að einstaklingsbúsetu fremur en fjölbýli. Starfandi bæjarstjóri býst við að viðræðurnar gangi greitt. „Það er markmið okkar og Jöfnunarsjóðsins að þetta gangi hratt fyrir sig og geti orðið tilbúið fyrir árslok,“ segir Arnar Jónsson.

Starfsemi að Skálatúni á sér langa sögu. Árið 1954 hófst þar rekstur barnaheimilis Templara. Þá var einnig þar búrekstur alveg fram til 1982. Styrktarfélag vangefinna, sem nú heitir Styrktarfélagið Ás, varð eignar- og rekstraraðili að Skálatúni 1960. Margar nýjar byggingar hafa verið reistar sem hýsa sambýli heimilisfólks að Skálatúni. Núna búa þar 40 einstaklingar með þroskahömlun í sex misstórum sambýlum. Flestir voru heimilismennirnir 58 talsins árið 1981.

259 milljónir í skuld

Rekstur Skálatúns stendur illa og eru skuldirnar 259 milljónir króna. Arnar Jónsson, starfandi bæjarstjóri í Mosfellsbæ, segir að þegar málaflokkur fatlaðs fólk fluttist til sveitarfélaganna hafi bærinn tekið yfir samning sem ríkið gerði við Skálatún. 

„Ég geri ráð fyrir að hluta til sé þetta vegna þess að þau njóta ekki stærðarhagkvæmni. Svo er náttúrulega sem er hluta til í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga ekki alveg að standa undir þessu. Og svo koma til afmarkaðir þættir eins og breyttur vinnutími, þ.e.a.s. stytting vinnuvikunnar,“ segir Arnar.

Einstaklingsrými framtíðin

Arnar býst ekki við að heimilisfólki að Skálatúni verði fjölgað.

„Nei, ég held að það verði nú líklega að það fækki, þetta verði minni einingar og öðru vísi byggt upp. Það er það sem sveitarfélögin gera öll. Okkur ber að þróa þetta yfir í einstaklingsrými,“ segir Arnar.

Arnar segir að skuldasöfnunin í Skálatúni hafi staðið í nokkurn tíma. Fjárdráttur starfsmanns þar sem uppgötvaðist fyrir tveimur árum eigi þó ekki þátt í henni. 

„Það er ekki skýringin á þessari stöðu. Það var tiltölulega lág fjárhæð ef ég man þetta rétt og hún hefur verið greidd,“ segir Arnar.

Áttu von á að þessar viðræður gangi hratt fyrir sig?

„Það er markmið okkar og Jöfnunarsjóðsins að þetta gangi hratt fyrir sig og geti orðið tilbúið fyrir árslok,“ segir Arnar.